Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þeir eru sárir og reiðir út í útgerðina“

22.10.2020 - 18:11
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga segir að framkoma Hraðfrystihússins Gunnvarar, sem gerir út togarann Júlíus Geirmundsson, lýsi algjöru skeytingarleysi og virðingarleysi fyrir störfum sjómanna. Allir verkferlar hafi verið þverbrotnir. Þrettán af 25 í áhöfn skipsins eru nú í einangrun með kórónuveirusmit.

Ákvörðun útgerðarinnar um að sigla ekki skipinu strax til hafnar eftir að fór að bera á veikindum meðal áhafnarinnar hefur vakið hörð viðbrögð. Einhverjir voru með einkenni í þær þrjár vikur sem skipið var að veiðum. Fram kom í tilkynningu frá Sjómannasambandi Íslands að útgerðin hefði hafnað ítrekuðum beiðnum umdæmislæknis sóttvarna á Vestfjörðum um að skipið kæmi í land vegna veikinda um borð.  

„Í okkar huga er þetta algjört skeytingarleysi og virðingarleysi fyrir störfum sjómanna. Þarna er ekki farið að reglum eða leiðbeiningum frá landlækni eða Sjómanasambandinu varðandi smitvarnir í skipum eða höfnum,“  segir Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga. 

Verkalýðsfélagið sendi síðdegis frá sér tilkynningu þar sem fram kom að málið hlyti að verða skoðað af eftirlitsaðilum eða lögreglu. Finnbogi segir alveg ljóst að þarna hafi allir verkferlar verið þverbrotnir og tilmælum ekki fylgt. Ákveðið hafi verið að eiga fjarfund með skipverjum á morgun. „Þeir eru bara í óvissu, þeir eru reiðir og sárir út í útgerðina.“

Fyrr í dag sagði fyrsti vélstjóri hjá Júlíusi Geirmundssyni að áhöfnin hefði verið sett í mikla hættu með þeim mistökum sem þarna voru gerð. Hann undraðist yfirlýsingu útgerðarinnar í gær og sagði hana „ljóta helvítis yfirklórið og drullumokstur.“