Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sveinn sýknaður vegna sölu afurða af heimaslátruðu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Úlla Árdal
Sveinn Margeirsson, fyrrverandi forstjóri Matís og núverandi sveitarstjóri í Skútustaðahreppi, var sýknaður í Héraðsdómi Norðurlands vestra á þriðjudaginn. Ákæruvaldið höfðaði mál gegn honum fyrir að selja og dreifa fersku lambakjöt á bændamarkaði á Hofsósi haustið 2018. Gripunum hafði verið slátrað utan löggilts sláturhúss.

Þess var krafist að Sveinn yrði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar en hann krafðist þess sjálfur að vera sýknaður og að allur sakarkostnaður og málvarnarlaun yrðu greidd úr ríkissjóði. Dómurinn féllst á kröfur Sveins.

Matvælastofnun gerði lögreglu fyrst viðvart um málið 16. nóvember 2018, og vísaði í umfjöllun Bændablaðsins um að Sveinn, sem var þá forstjóri Matís, hafi selt lambakjöt af heimaslátruðu á bændamarkaði. Í umfjöllun blaðsins var sagt að tilgangurinn með sölu kjötsins hafi verið að vekja athygli á að breyta þurfi regluverki um heimaslátrun og sölu.

Matvælastofnun vísað einnig til þess að bóndi á bæ í Skagafirði hafi í samstarfi við Matís slátrað lömbum heima fyrr sama haust. Framkvæmd slátrunarinnar hafi verið í samræmi við verklag sem Matís hefur lagt til að gildi um örsláturhús.

Bóndinn hafði fengið erindi frá Matís þar sem spurt var hvort hann gæti lagt til kjöt í rannsóknarverkefni. Það gekk út á að bera saman gæði kjöts sem slátrað væri í afurðarstöð og kjöts sem slátrað væri heima. Bóndinn féllst á beiðnina enda hafði hann heimild til að slátra heima og vinna kjöt í kjötvinnslu sinni.

Sveini var sagt upp sem forstjóra Matís í desember 2018 og ástæða uppsagnarinnar var sögð skortur á trausti milli stjórnarinnar og hans.

Sveinn neitaði sök á grundvelli þess að ekki hafi verið sýnt fram á að kjötið sem hann seldi á bændamarkaðinum hafi verið heimaslátrað kjöt. Dómurinn féllst á með Sveini að lögin sem ákæruvaldið byggði málið á taki eingöngu til slátrunar gripa en ekki til sölu eða dreifingar sláturafurða.

Allur sakarkostnaður, þar með talinn 573.500 krónur í málsvarnarlaun og 35.516 króna ferðakostnaður lögmannsins, greiðist úr ríkissjóði.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV