Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Segist hafa giskað rétt á Twitter-lykilorð Trumps

22.10.2020 - 17:05
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Hollenskur sérfræðingur í öryggismálum segist hafa fengið aðgang að Twitter-reikningi Donalds Trump Bandaríkjaforseta í síðustu viku með því að giska rétt á lykilorðið. Í fimmtu tilraun segist hann hafa hitt á rétt lykilorð með því að slá inn upphafsstafina í slagorði forsetans, Make America Great Again 2020: „maga2020!“. Í frétt Guardian segir að forsvarsmenn samfélagsmiðilsins Twitter hafni fréttaflutningnum.

Hollenska blaðið De Volkskrant hefur eftir öryggissérfræðingnum Victori Gevers að hann hefði getað gert ýmsar breytingar á reikningi forsetans, sent skilaboð og birt færslur í nafni Trumps sem hefðu orðið opinberar fyrir að minnsta kosti 87 milljónum Twitter-notenda. Reyndar segir Gevers að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem hann kemst inn á reikninginn, hann hafi einnig giskað á rétt lykilorð árið 2016, þá hafi það verið „yourefired“ eða „þúertrekinn“.

Segir leyniþjónustuna hafa þakkað sér fyrir

Gevers segir ljóst að forsetinn hafi ekki gert neinar sérstakar öryggisráðstafanir þegar hann stofnaði reikninginn, eins og að tryggja að það þyrfti tvöfalda auðkenningu við innskráningu. Hann segist hafa varað kosningateymi forsetans og fjölskyldu hans við og reynt að vekja athygli FBI og CIA á því hversu auðvelt væri að komast inn á reikninginn, en ekki fengið nein svör. Degi síðar hafi tvöfaldri auðkenningu verið komið á Twitter-reikninginn og tveimur dögum síðar hafi bandaríska leyniþjónustan haft samband við hann og þakkað honum fyrir ábendinguna. 

Í frétt Guardian segir að í yfirlýsingu frá forsvarsmönnum Twitter komi fram að engin merki séu um að Gevers hafi komist inn á reikning forsetans: „Við gerum sérstakar öryggisráðstafanir í kringum opinbera reikninga og reikninga sem tengjast kosningum.“