Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Samningaviðræður Breta og ESB lifna við að nýju

Mynd með færslu
 Mynd:
Samninganefndir Evrópusambandsins og Bretlands hyggjast halda áfram viðræðum um viðskiptasamning í dag. Nú er vika síðan viðræðunum var slitið og naumur tími til stefnu að ná samkomulagi.

Viðskiptasamningurinn á að taka gildi um áramót þegar Bretar kveðja sambandið endanlega. Aðalsamningamennirnir David Frost og Michel Barnier hafa undirritað sameiginlega viljayfirlýsingu um að halda viðræðunum áfram.

Mikið ríður á að samningar náist fyrir mánaðamót, þótt fulltrúar ESB segi að nægt gæti að það tækist fyrir miðjan nóvember. Í yfirlýsingunni segir að fundað verði daglega, virka daga og helgar nema annað verði ákveðið sérstaklega. Sérstaklega er þó tekið fram að samkomulag þurfi að nást um öll ágreiningsmál áður en hægt verði að fullyrða að samningur sé í höfn.

Helstu ásteytingarsteinar samningaviðræðnanna hafa verið hvernig haga eigi fiskveiðum, hvernig leysa beri úr mögulegum ágreiningsmálum og samkeppnisstaða fyrirtækja. Þegar samkomulag er í höfn þurfa þing beggja að fjalla um það og staðfesta.

Bretar hafa sagst tilbúnir að kveðja án samnings náist ekki vænlegur samningur um framangreind atriði. Það gæti þó valdið miklum usla í viðskiptum milli Breta og ríkja Evrópusambandsins enda hefur þrýstingur atvinnulífsins aukist beggja vegna, á að samningar náist.