Rut Guðnadóttir hlýtur Íslensku barnabókaverðlaunin

Mynd: Forlagið / Forlagið

Rut Guðnadóttir hlýtur Íslensku barnabókaverðlaunin

22.10.2020 - 11:58

Höfundar

Rut Guðnadóttir er handhafi Íslensku barnabókaverðlaunanna árið 2020. Verðlaunin hlýtur hún fyrir bók sína Vampírur, vesen og annað tilfallandi. Rut er pistlahöfundur og háskólanemi. Foreldrar hennar eru Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Elín Haraldsdóttir listamaður.

Rut hefur áður skrifað pistla og smásögur en Vampírur, vesen og annað tilfallandi er fyrsta skáldsaga hennar. „Það er alveg ótrúlegt að fyrsta bók sem ég skrifa í fullri lengd hljóti þennan heiður og satt besta að segja þá er ég ennþá svolítið dofin, ég er ekki búinn að fatta það og mér finnst þetta stórkostlegt og hlakka svo til að sjá hvað gerist næst,“ segir Rut um verðlaunin. „Hvernig hún kemur út í jólabókaflóðinu - það væri til dæmis rosalega gaman ef hún seldist mjög vel.“

Bókin segir frá vinkonunum Millu, Rakel og Lilju. Þegar furðuleg veikindi fara að breiðast um skólann ákveða þær að gera eitthvað í málunum. Ekki er hægt að biðja fullorðna fólkið um hjálp, það er gagnslaust, og hver myndi svo sem trúa þremur þrettán ára stelpum sem halda því fram að stærðfræðikennarinn þeirra sé vampíra? Ófyrirsjáanleg lögbrot, vinslit og misgáfulegar málfræðireglur flækjast svo fyrir tilraunum stelpnanna til að komast að því hvort nokkuð yfirnáttúrulegt sé yfirhöfuð á kreiki.

Íslensku barnabókaverðlaunanna hafa verið veitt síðan árið 1986 og voru þau stofnuð í tilefni af sjötugsafmæli rithöfundarins Ármanns Kr. Einarssonar. Að verðlaununum standa fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Barnavinafélagið Sumargjöf, IBBY á Íslandi og Forlagið. Fulltrúar þessara aðila skipa dómnefnd, auk tveggja nemenda úr 8. bekk.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Margrét, Rán og Þórarinn fá barnabókaverðlaun

Bókmenntir

Unglingabók um einelti fær barnabókaverðlaunin