Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Íranar og Rússar sakaðir um afskipti af kosningunum

epaselect epa08747833 Cristian Song drops off his family's completed ballots for the 2020 presidential election at an official ballot drop box in Bethesda, Maryland, USA, 15 October 2020. The 2020 election between US President Donald J. Trump and former Vice President Joe Biden is 03 November.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
Kjósandi í Bethesda í Maryland skilar atkvæði sínu í kjörkassa fyrir utankjörfundaratkvæði Mynd: epa
Rússar og Íranar hafa komist yfir upplýsingar um bandaríska kjósendur segir John Ratcliffe yfirmaður leyniþjónustustofnana Bandaríkjanna á blaðamannafundi FBI. Tilgangur ríkjanna sé að hafa áhrif á almenningsálit fólks.

Ratcliffe fullyrðir að Íranar hafi þegar sent ógnandi svikapósta á fjölda kjósenda til þess að skapa glundroða og valda Trump Bandaríkjaforseta ómældu tjóni.  

BBC greinir frá því að póstarnir líti út fyrir að koma frá Proud Boys, afar hægri sinnuðum hópi sem hefur verið hliðhollur Trump. Í póstunum er spjótum beint að Demókrötum með þeim orðum að þeim sé hollara að kjósa Trump ella hafi þeir verra af.  

Haft er eftir Ratcliffe að ljóst sé að ætlunin sé að nota upplýsingarnar til að valda upplausn og óreiðu. Það dragi svo í kjölfarið úr traustinu á lýðræðinu í Bandaríkjunum. Ratcliffe kallar framferðið „örvæntingafullar aðgerðir örvinglaðra andstæðinga.“ 

Ratcliffe kveðst ekki enn hafa orðið var við að Rússar hafi beitt sömu brögðum og Íranar en vitað sé að þeir búi yfir upplýsingum um kjósendur vestra. Mismunandi er eftir ríkjum hversu aðgengilegar upplýsingar um kjósendur eru. Með ýmsu móti sé hvaða gögn megi láta af hendi og eins hvernig megi nota þau.  

Hvorki Ratcliffe né Christopher Wray forstjóri Alríkislögreglunnar FBI vildu upplýsa hvernig ríkin tvö komust yfir gögnin né hvað þeir teldu Rússa ætla sér að gera við þau. Þeir fullvissa bandaríska kjósendur um að kosningakerfin væru örugg og stæðust allar árásir.