Hundurinn stundum kjaftfor „en hann gefur mér mikið“

Mynd: RÚV / RÚV

Hundurinn stundum kjaftfor „en hann gefur mér mikið“

22.10.2020 - 08:58

Höfundar

„Það er kannski ofsagt að ég hefði glaður skipt á hundinum og konunni minni því ég elska þau bara bæði,“ segir Þráinn Bertelsson kvikmyndagerðamaður og rithöfundur. Hann gaf nýverið út bók sem hann skrifaði ásamt Theobald, frönskum bolabít sínum.

Hundalíf … með Theobald er ný bók eftir Þráinn Bertelsson sem byggist á samskiptum hans við franskan bolabít og daglegum göngutúrum þeirra félaga. Á hverjum degi spássera þeir saman um bæinn og þá er mikið skrafað og spekúlerað. „Hann er stundum ægilega kjaftfor,“ segir Þráinn. „Við erum ekki alltaf sammála en við erum sammála um að gera gott úr þessu.“ Bókin er þriðja ævisögulega bókin eftir Þráinn. Hann hefur áður gefið út bækurnar ÉG - ef mig skyldi kalla sem er þroskasaga höfundar og svo EINHVERSKONAR ÉG um snemm-fullorðinsár sín. Þríleiknum kveðst Þráinn loka með bók þeirra Theobalds. „Ég reikna ekki með að skrifa margar bækur úr þessu og þetta er þá lokakaflinn,“ segir hann. Andlega sé hann orðinn gamalmenni. „En líkamlega er ég í toppformi,“ segir hann enda hlaupa félagarnir um holt og hæðir í Hafnarfirðinum á hverjum degi og hundurinn er fljótari að þreytast en eigandinn. „Það er okkar lífsins elexír að spóka okkur úti og það er gaman, það þekkja allir hestamenn og hundaeigendur að það er gaman að vera með dýrið úti í náttúrunni. Að vera með einhverjum sem les náttúruna öðruvísi en maður sjálfur eykur við upplifunina.“

Hundar og listamenn svipaðir

Eiginkona Þráins er langveik, með parkinsonsveiki, og býr hún nú á Hrafnistu. Það hefur verið erfitt fyrir Þráinn að geta ekki heimsótt hana eins mikið og áður vegna heimsóknabanns en þeir Theobald hafa fengið undanþágur. „Honum finnst voða gaman að koma á Hrafnistu,“ segir Þráinn. Þegar hann er spurður að því hvort hundurinn sé líf hans og yndi segir hann sposkur: „Það er kannski ofsögum sagt að ég hefði glaður skipt á honum og konunni minni því ég elska þau bara bæði. En hann gefur mér ákaflega mikið.“ Hundar eigi enda margt sameiginlegt með rithöfundum. „Þeir eru eiginlega eins og listamenn. Þeir þurfa ekki að geta neitt og þurfa ekki að gera neitt nema það sem þeim finnst áhugavert sjálfum. Þeir eru bara að skemmta manni.“

Heyrir það sem hann nennir að heyra

Og Theobald hefur ótrúlegt lyktarskyn eins og hundum er von og vísa en líka frábæra heyrn þó hún sé selektív. „Ef það skrjáfar í umbúðum sem hann hefur áhuga á þá er hann mættur en ef ég segi: Theobald komdu hérna, þá get ég beðið ansi lengi,“ segir Þráinn. Hann sé ljúfur og góður þó hann nenni ekki alltaf að hlýða. „Þetta eru yndisleg dýr og reyndar eru eiginlega öll dýr yndisleg.“

Þau áttu áður hesta og Þráinn segir að það sé ekkert mjög frábrugðið að eiga hund nema helst að einu leyti. „Hann myndi aldrei taka það í mál að bera mig en stundum lendir það á mér að bera hann. Ef hann hefur farið of langt finnst honum sjálfsagt að ég haldi á sér því ég stjórna þessu og ég verð þá að taka afleiðingunum,“ segir Þráinn.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

80 ár frá endurkomu Petsamó-ferðarinnar

Bókmenntir

Skemmtilegast að spóka sig um í fortíðinni