Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Gul viðvörun vegna austan storms

22.10.2020 - 09:43
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofan
Veðurstofan hefur gefið út gula veðurviðvörun vegna austan storms á Suðurlandi undir Eyjafjöllum og á Suðausturlandi, einkum í Öræfum og Mýrdal, í kvöld og í nótt. Spáð er austan 18-23 m/s og vindhviðum staðbundið yfir 35 m/s. Ökumönnum á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind er bent á að fara varlega.

Gula viðvörunin á suðurlandi gildir frá klukkan 16 í dag til klukkan 5 í fyrramálið, föstudaginn 23. október. Viðvörunin á Suðausturlandi gildir frá klukkan 22 í kvöld til klukkan 5 í fyrramálið.

Veðurhorfur á landinu eru annars þær að það gengur í austan 13-18 m/s í dag, hvassast syðst en hægari vindur norðanlands. Það verður rigning eða slydda um landið suðaustanvert, annars úrkomulítið. Hiti verður á bilinu 2 til 7 stig en kaldara norðaustanlands framan af degi.

Á morgun er útlit fyrir austan 10-18 m/s og víða rigningu með köflum. Það verður talsverð úrkoma um tíma á Suðausturlandi og Austfjörðum. Hiti breytist lítið.

Fréttin hefur verið uppfærð með nýrri gulri viðvörun á Suðausturlandi.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV