Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Frans páfi kveðst hliðhollur samböndum samkynhneigðra

22.10.2020 - 02:25
Pope Francis arrives at Zimpeto Stadium where he will celebrate a Holy Mass, in Maputo, Mozambique, Friday, Sept. 6, 2019. He flies later Friday to Madagascar for the second leg of his weeklong trip to Africa.(AP Photo/Alessandra Tarantino)
Páfi á þjóðarleikvanginum í Maputo í morgun. Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP
Frans páfi segist styðja sambönd fólks af sama kyni og að þau séu börn guðs. Hann kveðst hlynntur því að samkynhneigðir fái að skrá sig í staðfesta samvist, sem er alger viðsnúningur frá viðhorfi fyrri páfa.

Með því telur páfi að lagalegur réttur samkynhneigðra sé tryggður en kveðst enn andvígur hjónaböndum samkynhneigðra. Hjónaband segir hann eingöngu eiga að vera millum fólks af gagnstæðu kyni.

Þetta kemur fram í máli páfa í „Francesco“, nýrri heimildamynd eftir rússneska kvikmyndagerðarmanninn Evgeny Afineevsky sem frumsýnd var á kvikmyndahátíðinni í Róm.

Áður hafði páfi sagt í viðtölum að hjónabandið hefði alla tíð tilheyrt karli og konu, það viðhorf hafi ekki aðeins tengst kirkjunni. Að sögn Austen Ivereigh sem skrifaði ævisögu páfa studdi hann sambönd samkynhneigðra meðan hann var enn erkibiskup í Buenos Aires.

Jafnframt hafi hann hvatt til stuðnings og skilnings í garð samkynhneigðs fólks, sem hafi reitt íhaldsöm öfl innan kaþólsku kirkjunnar mjög til reiði.