Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Við erum eiginlega bara harmi slegin“

21.10.2020 - 19:21
Mynd: Guðmundur Bergkvist / rúv
Lögregluþjónar á höfuðborgarsvæðinu þurfa að fjarlæga allar persónulegar merkingar af vestum sínum, eftir að mynd af lögreglukonu með fánamerki tengd öfgaskoðunum fór í dreifingu í morgun. Formaður allsherjar- og menntamálanefndar vill fund með lögreglunni vegna málsins. Yfirlögregluþjónn segist harmi sleginn.

„Þetta eru svo kolröng skilaboð sem koma með þessari mynd, því lögreglan leggur nótt við dag í að reyna að rækta samband við hópa, sem meðal annars þessi neðsti fáni á myndinni er í rauninni að fara í þveröfuga átt með. Þannig við lítum þetta bara mjög alvarlegum augum og erum eiginlega harmi slegin yfir því að þetta hafi verið svona,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Fánarnir tengdir við hatursorðræðu

Myndin sem um ræðir var tekin af Eggerti Jóhannessyni, ljósmyndara Mbl, vorið 2018. Á henni sést lögreglukona að störfum með þrjá fána á vesti sínu sem taldir eru hafa tengingu við hatursorðræðu. Efsta merkið er svokallaður Thin Blue Line fáni, sem er tákn fyrir samstöðu lögreglumanna víða um heim. Merkið hefur þó á síðustu árum orðið mjög umdeilt og sagt vera svar við Black Lives Matter hreyfingunni. Þá bar konan svarthvítan íslenskan fána með stöfunum IS í horninu til að skilgreina landið. Neðsti fáninn er svokallaður Vínlandsfáni; grænn fáni með norrænum krossi sem er víða tengdur við öfga hægrihópa. Á honum er svokölluð punisher hauskúpa, sem hefur verið notuð sem táknmynd valds hjá lögreglumönnum í Bandaríkjunum og víðar.

Tjáir sig ekki um hvort málið hafi afleiðingar fyrir konuna

Ásgeir Þór vill ekki tjá sig um hvort málið komi til með að hafa afleiðingar fyrir viðkomandi starfsmann. 

„Ég ræði ekki mál lögreglumannsins hér en eftir að við sáum þessar myndir, sem eru sumar frá því að vera umdeildar allt að því að vera hreinlega ósmekklegar, þá brugðumst við við með því að hreinlega senda orðsendingar á lögreglumenn að héðan í frá verður bara óheimilt að bera svona myndir við búninginn sinn,“ segir hann.

Þurfti að fletta upp merkingu fánans í dag

Nokkuð hefur verið um að lögregluþjónar skiptist á ýmis konar merkjum og setji á búninga sína. 

„Menn hafa íka verið að setja fæðingardag barnsins síns, gamla H-númerið, merki sem þau hafa fengið frá öðrum lögreglumönnum, þannig lagað saklaust. Þetta er ekki eftir reglugerð en þetta er eitthvað sem sást ekki og við kannski vorum of sein að bregðast við. Og ég verð líka að viðurkenna það að þegar ég sá þennan græna fána í morgun þá hafði ég ekki hugmynd um hvað hann þýðir, ég þurfti hreinlega að fletta því upp. Og það voru mikil vonbrigði þegar ég komst að því hvað hann þýðir í raun og veru í samfélaginu,“ segir Ásgeir. 

„Þetta er bara hörmulegt að þetta hafi komið upp. Og það sem er svo skrítið - þetta er þriggja ára gömul mynd. Hún er margoft búin að birtast í fjölmiðlum. Að enginn hafi kippt í spottana fyrr, það er ennþá verra. Til þess að við hefðum getað brugðist við fyrr.“