Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Veikburða eldra fólki var neitað um sjúkrahússvist

21.10.2020 - 17:00
Mynd: EPA / EPA
Veikburða eldra fólki var kerfisbundið neitað um sjúkrahússvist í Stokkhólmi og nágrenni, á fyrstu mánuðum Covid-faraldursins. Oft var líknandi meðferð fyrirskipuð án þess að læknir hitti sjúklinginn. Hávær gagnrýni er nú uppi á framgöngu yfirvalda gagnvart eldri borgunum og margir spyrja hvort hreinlega hafi verið um lögbrot að ræða.

Líknandi meðferð og morfín

Þegar Thomas Andersson hringdi í föður sinn um mánaðamótin mars-apríl, biðu hans slæmar fregnir. Starfsfólk einkarekna dvalarheimilisins þar sem faðirinn bjó, sagði Thomasi að pabbi hans væri við dauðans dyr - hann þyrfti að koma og kveðja. Faðir hans hafði fengið Covid-19 og eftir að starfsfólkið ráðfærði sig við lækni, í gegnum síma, var ákveðið að veita honum líknandi meðferð með morfíni. Hvorki Jan né aðstandendum hans var þó greint frá þessari ákvörðun. Sonurinn, sem sjálfur er læknir, krafðist þess strax og hann fékk fregnirnar, að þessari meðferð yrði hætt. Enda hægir morfín á öndun - nokkuð sem Covid-sjúklingar þurfa ekki beinlínis á að halda. Í staðinn vildi Thomas að faðir hans fengi vökva í æð og lyfin sín - blóðþynningarlyf. Faðirinn náði sér fljótt á strik og er við góða heilsu í dag.

Ef ekki hefði verið fyrir okkur aðstandendurna, segir sonurinn í samtali við Dagens Nyheter, þá hefðu þau kostað föður minn lífið.

Dó einn í herberginu sínu

Moses Ntanda var ekki jafn heppinn. Hann var 72 ára, hraustur og hress, segja ættingjar hans, en með svolítil minnisglöp. Eftir að hann greindist með covid, var honum veitt líknandi meðferð, eftir símtal við lækni. Hann dó einn inni á herberginu sínu.

Þessar frásagnir og aðrar svipaðar hafa skotið upp kollinum í sænskum fjölmiðlum annað veifið, undanfarna mánuði.

Yfir 100 kærur

Og ekki verið alveg ljóst hverju þetta sætti. Það á ekki að setja fólk í líknandi meðferð nema bæði sjúklingurinn og aðstandendur séu upplýstir um það. Og ákvörðunina á að taka af tveimur læknum sem þekkja til sjúklingsins. Læknar sem blaðamenn Dagens Nyheter hafa rætt við, segja lögbrot að fara öðruvísi að.

Því er kannski ekki að undra að eftirlitsstofnun með heilbrigðiskerfinu hér í Svíþjóð hefur nú borist yfir 100 kærur, þar sem heilbrigðisstofnanir eru sakaðar um að hafa neitað eldra fólki um meðferð vegna Covid-19.

Fyrirmæli frá heilbrigðisyfirvöldum

Blaðamaðurinn Maciej Zaremba skrifaði fyrir skemmstu grein í Dagens Nyheter sem varpar nokkru ljósi á málið. Og hefur vakið mikla athygli. Þar kemur fram að ákvörðun um að veita eldri borgurum ekki meiri læknisþjónustu, var tekin í samræmi við skýr fyrirmæli frá yfirvöldum heilbrigðismála í Stokkhólmi og nágrenni.

Fyrirmælin er að finna í vegvísi sem tók gildi þann 20. mars. Hugsunin að baki var sú að ef allt færi á versta veg og sjúkrahúsin fylltust af fólki, alvarlega veiku af Covid, þá þyrfti að forgangsraða. Þeir sem væru elstir og mest veikburða, fengju þá ekki pláss á sjúkrahúsi. Blessunarlega hefur staðan enn ekki orðið svo slæm nokkurs staðar í Svíþjóð. En engu að síður virðast fyrirmælin hafa orðið til þess að fjölmörgu veiku fólki var verið neitað um læknisþjónustu. Oft lífsnauðsynlega læknisþjónustu.

Samkvæmt fyrirmælunum á nefnilega ekki að flytja veikburða eldra fólk á sjúkrahús. 
Í staðinn á að hlúa að fólkinu á dvalarheimilinu. Og ef fólk þjáist af minnisglöppum, og þreytist auðveldlega, á heldur ekki að gera rannsóknir eða taka röntgenmyndir, nema í undantekningartilvikum. Fólk sem á erfitt með að ganga upp tröppur, þarf aðstoð við að elda eða þrífa sig og er orðið gleymið - það á ekki að fá neina bráðaþjónustu- nema það sé vegna beinbrots. Í skjalinu er einnig mælt með því að leita leiða til að læknir þurfi ekki að hitta sjúklinginn augliti til auglits. Í staðinn er hægt að notast við síma.

Blaðamaðurinn Maciej Zaremba segir að með þessu sé verið að gefa grænt ljós á að læknar geri ekkert fyrir þá sem eru eldri og veikburða, jafnvel bara með minnisglöp, ef þeir veikjast af Covid.

Eftir að reglurnar voru settar fækkaði læknisheimsóknum á dvalarheimili í Stokkhólmi um fjórðung. Á sama tíma og Covid-faraldurinn var að komast í fullan gang og margir veikir.

90% látinna 70 ára og eldri

Að fólk sem býr á dvalarheimilum fái ekki að leggjast inn á sjúkrahús, þýðir í raun að það fær litla læknisþjónustu. Möguleikar á að hjúkra fólki og lækna inni á sænskum dvalarheimilum eru í flestum tilfellum mjög takmarkaðir. Þar eru yfirleitt engin tæki til að mæla súrefnismettun eða gefa súrefni. Og ekki tæki eða kunnátta til að gefa vökva í æð. Því var oft kannski fátt til ráða annað en að bíða og sjá, eða veita líknandi meðferð, ef heimilisfólk veiktist af Covid-19.

Þegar vegvísirinn um meðferð eldri borgara hafði verið í gildi í um tvo mánuði var honum breytt, eftir þrýsting frá læknum og umfjöllun fjölmiðla. Orðið forgangsröðun var fellt út, og flokkunin í heilbrigt eða veikburða fólk varð ekki lengur jafn algild. Auk þess var það ekki lengur bannað að senda veikburða fólk á bráðamóttöku þótt það væri mælst til þess að það væri ekki gert. Loks var það tekið fram í nýja vegvísinum að læknir með nægjanlega þekkingu ætti að meta hvert tilfelli fyrir sig.

Um 90% þeirra 5.922 sem hafa látist af völdum Covid-19 hér í Svíþjóð voru sjötugir eða eldri. Og stór hluti látinna bjó á dvalar- eða hjúkrunarheimilum. Sérstaklega í Stokkhólmi. 

Stofnun sem hefur eftirlit með sænska heilbrigðiskerfinu hefur verið að rannsaka viðbrögðin við Covid-faraldrinum, frá því í maí. Hvort vegvísirinn frá yfirvöldum í Stokkhólmi og nágrenni hafi orðið til þess að fólk lét lífið að óþörfu, á vonandi eftir að koma í ljós.

 

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV