Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Skólastjóri leikskóla fær bætur fyrir harkalega uppsögn

21.10.2020 - 18:31
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már - RÚV
Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi í síðustu viku sveitarfélag til að greiða fyrrverandi skólastjóra leikskóla þrjár milljónir króna í bætur, þar af 500 þúsund í miskabætur. Dómurinn horfði til þess að atburðarásin í kringum uppsögnina hefði átt sér stað í litlu sveitarfélagi og augljóst að veruleg hætta væri á að íbúum þess yrði fljótlega kunnugt um hana.

Skólastjórinn var boðaður á fund sveitarstjóra og skrifstofustjóra í júní fyrir þremur árum. Þar var henni boðið að skrifa undir starfslokasamning sem hún féllst á að gera eftir að fallist hafði verið á tvær breytingar. Henni stóð ekki til boða að fara með samninginn og bera hann undir stéttarfélag sitt eða lögmann.

Konan taldi sig hafa verið tilneyddan til að skrifa undir samninginn. Hún sagði boð á fundinn hafa komið sér verulega á óvart og hana hefði ekki grunað að tilefni fundarins með sveitarstjóranum og skrifstofustjóra sveitarfélagsins væri þetta.  Hún sagðist hafa spurt hvað gerðist ef hún neitaði að skrifa undir og fengið þau svör að þá yrði ráðist í harðari aðgerðir og henni sagt upp störfum. 

Konan kærði uppsögnina til sveitastjórnarráðuneytisins sem komst að þeirri niðurstöðu að sveitarfélagið hefði ekki brotið lög. En eftir að hafa leitað til umboðsmanns Alþingis sneri ráðuneytið þeirri ákvörðun við og taldi uppsögnina hafa verið ólögmæta.

Skólastjórinn sagði í greinargerð sinni til dómsins að sveitarstjórinn hefði haft yfirburðastöðu á fundi þeirra. Hann væri reyndur lögmaður, hefði boðað til fundarins og verið undir hann búinn. Auk þess hefði hann haft annan mann sér til fulltingis.  

Þá hefði sveitarstjórinn með ófyrirleitinni framgöngu sinni brotið gegn starfsheiðri hennar að ófyrirsynju og framganga hans gagnvart henni verið til þess fallinn að rýra álit hennar í augum annarra. Fagsamfélagið væri lítið í sveitarfélaginu og því auðvelt að skaða persónu, æru, orðspor og starfsheiður með svona harkalegri uppsögn.

Héraðsdómur kemst að þeirri niðurstöðu að uppsögn konunnar hafi verið ólögmæt og hún eigi því rétt á bótum. Þá gerir dómurinn athugasemdir við það hvernig uppsögnin var kynnt starfsmönnum. Konunni hafi boðist að kveðja samstarfsfólk sitt en þangað hafi sveitarstjórinn líka komið og tilkynnt um uppsögn hennar. Þetta telur dómurinn hafa verið mjög meiðandi aðferð og til þess fallinn að vekja með samstarfsfólki hennar þá hugmynd að tilefni hafi verið til að vísa henni fyrirvaralaust úr starfi.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV