Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Purdue Pharma gengst við ábyrgð á ópíóðafaraldrinum

21.10.2020 - 21:01
Boxes of OxyContin tablets sold in China sit on a table in southern China's Hunan province on Sept. 24, 2019. Representatives from the Sacklers' Chinese affiliate, Mundipharma, tell doctors that OxyContin is less addictive than other opioids — the same pitch that their U.S. company, Purdue Pharma, admitted was false in court more than a decade ago. (AP Photo/Mark Schiefelbein)
 Mynd: AP
Bandaríska lyfjafyrirtækið Purdue Pharma hefur samþykkt að greiða rúma átta milljarða bandaríkjadala til að ná sátt í málum sem höfðuð voru gegn því vegna verkjalyfsins Oxycontíns. Sáttin kemur þó ekki í veg fyrir að stjórnendur fyrirtækisins verði dregnir til ábyrgðar fyrir sinn hlut í ópíóðafaraldrinum í Bandaríkjunum.

Purdue Pharma setti Oxycontín á markað 1996 en lyfið er unnið úr efnum tengdum ópíumi og morfíni. Lyfið var kynnt sem undralausn við þrálátum sársauka af ýmsu tagi, og fullyrt að það væri ekki ávanabindandi, eins og önnur morfínskyld lyf. Bandaríska lyfjaeftirlitið féllst á fullyrðingar fyrirtækisins, án þess að rannsaka þær nánar. Í ljós kom að Oxycontin var alveg jafn ávanabindandi og önnur ópíóðalyf og nýjir fíklar urðu til um öll Bandaríkin.

Ekki leið á löngu þar til lyfið ruddi flestum öðrum vímuefnum af markaði, aðallega vegna þess hversu auðvelt var að mylja pillurnar niður, leysa duftið upp og sprauta því í æð. Þetta varð síðar að ópíóðafaraldri, en talið er að hundruð þúsunda Bandaríkjamanna hafi dáið í honum síðastliðinn áratug. Fjöldi lyfjafyrirtækja, og stærstu lyfjadreifingarfyrirtækin, hafa þurft að greiða skaðabætur vegna þessa. Þær upphæðir komast þó ekki í hálfkvisti við þær sem Purdue Pharma þarf að reiða fram, alls 8,3 milljarða bandaríkjadala. Þetta er langhæsta sekt sem fyrirtæki sem tengjast faraldrinum hafa þurft að reiða fram. 

epa08762396 Deputy US Attorney General Jeffrey Rosen announces that Purdue Pharma LP has agreed to plead guilty to criminal charges over the handling of its addictive prescription opioid OxyContin during a news conference at the Justice Department in Washington, DC, USA, 21 October 2020.  EPA-EFE/YURI GRIPAS / POOL
 Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL
Jeff Rosen, varadómsmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði að samkomulagið fæli það í sér að fyrirtækið yrði leyst upp.

Purdue Pharma er tæknilega gjaldþrota og Rosen á ekki von á því að milljarðarnir átta fáist greiddir. Stjórnendur og eigendur hafi þó gengist við brotum sínum og glæparannsókn haldi áfram. Á meðal stærstu eigenda Purdue Pharma eru nokkrir innan Sackler fjölskyldunnar, sem hefur gagnast gríðarlega á ópíóðafaraldrinum. Þessi niðurstaða kemur á besta tíma fyrir Donald Trump bandaríkjaforseta, sem hafði heitið aðgerðum gegn lyfjarisunum vegna faraldursins.