Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Nemendur biðu lengi með morðingjanum eftir Paty

21.10.2020 - 22:34
Mynd: EPA-EFE / AP POOL
Sjö hafa verið ákærð í tengslum við morðið á kennaranum Samuel Paty nærri París í síðustu viku, þar á meðal tveir nemendur í skólanum sem hann kenndi við. Þjóðarsorg var í Frakklandi í dag vegna morðsins.

Minningarathöfn var haldin í Sorbonne háskóla í kvöld, að viðstöddum fjölskyldu Paty og hundruð gesta. Hann var myrtur fyrir utan skólann, skammt frá París, fyrir að ræða skopmyndir af Múhameð spámanni við nemendur. Emmanuel Macron Frakklandsforseti sæmdi Paty æðstu heiðursorðu Frakka í dag og sagði að hann hefði verið myrtur af hugleysingjum fyrir að sinna starfi sínu. 

Sjö hafa verið ákærð í tengslum við morðið. Saksóknarar greindu frá því í kvöld að morðinginn hefði greitt tveimur nemendum um 300 evrur, jafnvirði nærri fimmtíu þúsund íslenskra króna, fyrir að láta hann vita þegar Paty gengi út úr skólanum. Nemendurnir, 14 og 15 ára, biðu með árásarmanninum í rúmar tvær klukkustundir fyrir utan skólann, þar til Paty birtist. Talið er hinir fimm tengist morðhótunum sem Paty höfðu borist á samfélagsmiðlum nokkrum dögum áður, en myndbirtingar hans voru gagnrýndar á samfélagsmiðlum og faðir eins nemenda krafðist þess meðal annars að hann yrði rekinn. Saksóknari staðfesti í dag að sá hefði rætt við morðingjann nokkrum dögum áður en skilaboð hefðu fundist í símum þeirra beggja.