Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Með reikning í Kína eftir misheppnuð viðskipti

President Donald Trump speaks during a roundtable discussion about "Transition to Greatness: Restoring, Rebuilding, and Renewing," at Gateway Church Dallas, Thursday, June 11, 2020, in Dallas.(AP Photo/Alex Brandon)
 Mynd: AP
Skattaskýrslur Donalds Trump Bandaríkjaforseta hafa varpað ljósi á bankareikning í hans eigu í Kína. New York Times fjallar í dag um viðskipti forsetans í Kína sem vekja sérstaka athygli í ljósi harðra deilna hans við kínversk stjórnvöld og ummæla hans um hættuna á kínverskum yfirráðum og njósnum. Þá hefur forsetinn margoft sakað Joe Biden, mótframbjóðanda sinn í komandi forsetakosningum, um að eiga í viðskiptatengslum við Kína.

Áform Trumps um hótelviðskipti í Kína

Kína er eitt þriggja ríkja utan Bandaríkjanna þar sem Donald Trump á bankareikning. Erlendu reikningarnir sjást ekki á opinberum gögnum um fjármál forsetans þar sem þeir eru skráðir á félög í hans eigu. Kínverska reikningnum er stýrt af hótelkeðju í eigu forsetans, Trump International Hotels Management L.L.C., sem greiddi hátt í 200 þúsund dollara skatt í Kína á árunum 2013-2015. Enn er óljóst hver velta reikningsins er. 

Talsmaður hótelkeðjunnar segir að félagið hafi stofnað bankareikning eftir að hafa opnað skrifstofu í Kína með það fyrir augum að kanna viðskiptamöguleika þar í landi. Engin viðskipti hafi þó farið fram í gegnum skrifstofuna og hún hafi ekki verið starfrækt frá árinu 2015. „Þótt reikningurinn sé opinn hefur hann ekki verið notaður í neinum öðrum tilgangi,“ segir hann í samtali við New York Times. Ekki hefur verið greint frá því í hvaða kínverska banka reikningurinn er.

„Kínaveira“, tollastíð og ásakanir á hendur Biden

Fljótlega eftir að Trump tók við embætti hófst viðskiptastríð milli Bandaríkjanna og Kína þegar Bandaríkin snarhækkuðu tolla og aðrar viðskiptahömlur á Kína. Eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á hefur Trump svo verið tíðrætt um að veiran hafi átt upptök sín í Kína og dreifst þaðan um heiminn, og kallað hana „Kínaveiruna“. 

Á síðustu vikum hefur Trump ítrekað sakað Joe Biden, mótframbjóðanda sinn í komandi forsetakosningum, um að hafa verið strengjabrúða kínverskra stjórnvalda þegar hann gegndi embætti varaforseta Bandaríkjanna. Trump hefur sagt Biden gera lítið úr þeim hættum sem fylgja auknum ítökum Kínverja í alþjóðaviðskiptum og minnt á meint viðskipti Hunter Biden, sonar Joe, í Kína. Í umfjöllun New York Times segir að mjög sé á reiki hvort Hunter Biden hafi yfir höfuð hagnast á viðskiptum í Kína og að engin merki séu um að Joe Biden hafi átt í viðskiptum þar í landi. 

Skrautlegur viðskiptaferill í Kína

Sjálfur varði forsetinn hins vegar áratug í misheppnaðar viðskiptatilraunir í Kína og í umfjöllun New York Times er rakin löng saga þeirra. Árið 2008 reyndi hann til dæmis að hrinda af stað uppbyggingu á skrifstofuturni í Guangzhou sem aldrei var byggður og árið 2012 opnaði hann skrifstofu í Shanghai og gerði í framhaldinu samning við eitt stærsta ríkisrekna fyrirtækið þar í landi. Talið er að Trump hafi síðast greitt skatta og gjöld í tengslum við fjárfestingar í Kína árið 2018, eftir að hafa gegnt embætti forseta í tvö ár. Eftir að hann varð forseti fékk hann einnig samþykkt fleiri en eitt vörumerki sem hann hafði sótt um leyfi fyrir í Kína.

Þá hefur forsetinn í gegnum tíðina einnig átt í stórfelldum viðskiptum við Kínverja utan Kína, til dæmis hafa efnaðir Kínverjar fjárfest í hótelum og skýjakljúfum Trumps í Las Vegas í Bandaríkjunum og í Vancouver og British Columbia í Kanada. Stuttu eftir að Trump bar sigur úr býtum í forsetakosningunum árið 2016 seldi hann fasteign á Manhattan í New York til hálfkínveskrar viðskiptakonu sem er sögð hafa bein tengsl við kínversk yfirvöld.