Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Líkur aukast að nýju á COVID-björgunarpakka

epa07885902 The US Capitol Building in Washington, DC, USA, 01 October 2019.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
Þinghúsið í Washington. Mynd: EPA-EFE - EPA
Líkurnar á að Bandaríkjaþing samþykki björgunarpakka vegna efnahagslegra afleiðinga kórónuveirufaraldursins hafa aukist að nýju.

Frumvarp er í smíðum og fulltrúar Demókrata og Repúblikana kveðast bjartsýnir en óljóst sé hvort takist að ljúka málinu fyrir forsetakosningarnar 3. nóvember næstkomandi.

Nancy Pelosi forseti fulltrúadeildarinnar segist vongóð, í samtali við Bloomberg fréttastofuna, um að stuðningur beggja flokka fáist við frumvarpið. „Lagasetning er vandasamt verkefni,“ bætir hún við.

Möguleikarnir á að koma frumvarpi í gegnum þingið jukust eftir að Mitch McConnell, forvígismaður meirihlutans í öldungadeildinni lofaði að þar yrðu greidd atkvæði um málið.

Enn ber talsvert í milli flokkanna hvað fjárhæðir snertir en Pelosi segist orðin bjartsýnni á málamiðlun í málinu en áður, eftir samtal hennar við Steven Mnuchin fjármálaráðherra.

Ráðherrann er á ferð um miðausturlönd en Pelosi býst við fundi með honum þegar hann snýr heim síðar í dag, miðvikudag.