Laskað lið Shaktar vann Real í Madríd

epa08762677 Shakhtar Donetsk's Manor Solomon (R) celebrates after scoring the 0-3 goal during the UEFA Champions League group B soccer match between Real Madrid and Shakhtar Donetsk at Alfredo Di Stefano stadium in Madrid, Spain, 21 October 2020.  EPA-EFE/JUANJO MARTIN
 Mynd: EPA-EFE - EFE

Laskað lið Shaktar vann Real í Madríd

21.10.2020 - 19:15
Fyrstu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta lýkur í kvöld. Sex leikir hófust núna klukkan sjö. Tveimur leikjum er þegar lokið í dag. Austurríska liðið Salzburg og Lokomotiv Moskva, frá Rússlandi gerðu 2-2 jafntefli. Spánarmeistarar Real Madríd  tóku svo á móti úkraínska liðinu Shakhtar Donetsk. 

Minnstu munaði að leiknum í Madríd yrði frestað. Tíu leikmenn úr 25 manna Meistaradeildarhópi Shakhtar eru nefnilega með kórónuveiruna. Reglur Evrópska knattspyrnusambandsins kveða á um að leikir skuli spilaðir séu að minnsta kosti þrettán leikmenn leikfærir. Lið Shakhtar mætti því lemstrað til leiks í dag.

Það breytti því þó ekki að Mateus Martins kom úkraínska liðinu yfir með marki á 29. mínútu. 1-0 fyrir Shakhtar Donetsk. Það kveikti heldur betur á úkraínska liðinu því fjórum mínútum síðar áttu það fína sókn sem lauk með sjálfsmarki Raphael Varane í liði Real og Shakhtar komið í 2-0. Staðan í raun ótrúleg, sérstaklega í ljósi forfalla hjá Shakhtar. En á þeim bænum hömruðu menn bara járnið fyrst það var heitt og Manor Solomon kom þeim í 3-0 fyrir hálfleik.

Eftir níu mínútna leik í seinni hálfleik tókst þó Króatanum Luka Modric að brjóta ísinn fyrir heimamenn í Real Madríd og lagaði stöðuna í 3-1. Fimm mínútum síðar hafði svo Brasilíumaðurinn Vincíus Junior hleypt lífi í leikinn þegar hann minnkaði muninn fyrir Real í 3-2. Þegar komið var fram í uppbótartíma leiksins tókst Federico Valverde að jafna metin fyrir Real Madríd í 3-3. Við nánari skoðun var þá rangstaða og markið fékk ekki að standa. Shakhtar Donetsk vann því 3-2 sigur í þessum fjörlega leik.