Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Evrópumeistarnir byrjuðu með látum

epa08763271 Corentin Tolisso (2-R) of Bayern Munich celebrates with teammates after scoring his team's third goal during the UEFA Champions League Group A stage match between FC Bayern Munich and Atletico Madrid at Allianz Arena in Munich, Germany, 21 October 2020.  EPA-EFE/Alexander Hassenstein / POOL
 Mynd: EPA-EFE - GETTY IMAGES POOL

Evrópumeistarnir byrjuðu með látum

21.10.2020 - 21:12
Fyrstu umferðinni í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta lauk í kvöld. Evrópumeistararnir í Bayern München hófu titilvörn sína á heimaleik á móti Atlético Madríd. Evrópumeistararnir fóru á kostum og unnu öruggan sigur.

 

Bæjarar voru hreint frábærir í Meistaradeildinni þegar keppni í henni lauk í sumar. Og þeir tóku upp þráðinn þar sem frá var horfið í kvöld því á 28. mínútu var það Kingsley Coman hetjan úr úrslitaleiknum í sumar sem kom Bayern á blað. 1-0. Fjórum mínútum áður en fyrri hálfleikur var á enda sendi Coman svo á Leon Goretzka sem jók forskot Bayern í 2-0 og þannig var staðan í München í hálfleik. Á 66. mínútu sá svo Corentin Tolisso um að skora þriðja markið fyrir Bayern og yfirburðirnir miklir. Kingsley Coman fullkomnaði svo frábæran leik sinn í kvöld þegar hann bætti fjórða markinu við átján mínútum fyrir leikslok og titilvörn Bayern hófst því á 4-0 sigri á Atlético Madríd.

Í Amsterdam í Hollandi tók Ajax á móti Evrópumeisturunum frá því í fyrra, Englandsmeisturum Liverpool. Á 35. mínútu sendi Sadio Mané í liði Liverpool fyrir mark Ajax. Nicolas Tagliafico í Ajax fékk boltann í sig og inn í markið fór boltinn. Þetta sjálfsmark tryggði Liverpool 1-0 sigur.

Manchester City tók á móti Porto. Þar voru það gestirnir frá Portúgal sem náðu forystunni þegar Marulanda Fernando Luis Diaz skoraði á 14. mínútu. 1-0. Aðeins þremur mínútum síðar hafði City þó krækt í vítaspyrnu og það kom í hlut Sergio Aguero að taka vítið. Hann skoraði og jafnaði metin fyrir Manchester City í 1-1. Ilkay Gundogan skoraði beint úr aukaspyrnu á 65. mínútu sem kom City yfir í 2-1. Sautján mínútum fyrir leikslok sá svo Ferran Torres um það að gulltryggja sigur Manchester City sem vann Porto þar með 3-1.

Önnur úrslit kvöldsins urðu þau að Lokomotiv Moskva og Salzburg gerðu 2-2 jafntefli í A-riðli. Í B-riðli skildu Borussia Mönchengladbach og Inter jöfn 1-1 og Shakhtar Donetsk vann Real Madríd 3-2. Í C-riðli sigraði Olympiacos Marseille 1-0. Ögmundur Kristinsson var ekki í leikmannahópi Olympiacos. Og í D-riðli burstaði Atalanta danska liðið Midtjyllan 4-0. Mikael Neville Anderson spilaði síðustu fjórar mínútur leiksins fyrir Midtjylland.