Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ekki ástæða til að óttast COVID-19 smit í aflanum

21.10.2020 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Matvælastofnun telur ekki ástæðu til að meðhöndla aflann úr Júlíusi Geirmundssyni með öðrum hætti en venjulega þótt kórónuveirusmit hafi greinst um borð.

Nítján skipverjar af 25 um borð í togaranum Júlíusi Geirmundssyni reyndust vera með COVID-19 þegar skipið lagðist að bryggju á Ísafirði í fyrradag. Sýni voru tekin úr þeim í gær. Skipið hafði þá verið á sjó í nærri þrjár vikur og sumir skipverjanna með einkenni. Samkvæmt heimildum fréttastofu varð veikinda fyrst vart um borð tveimur til þremur dögum eftir brottför. Skipverjar veiktust síðan einn af öðrum en enginn alvarlega og héldu því áfram störfum um borð.

Súsanna Björg Ástvaldsdóttir, umdæmislæknir sóttvarna á Vestfjörðum, sagði í fréttum í gær að rætt yrði við Matvælastofnun um hvernig meðhöndla ætti aflann. 

„Það er náttúrlega ákvörðun fyrirtækisins en samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum í dag er ekkert sem bendir til þess að veiran geti borist með matvælum. Þetta er álit allra stofnana sem vinna að matvælaöryggi, Matvælöryggisstofnunar Evrópu, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Í samræmi við þá vitneskju sem við höfum er ekkert sem bendir til þess að veiran geti borist með matvælum,“ segir Dóra S. Gunnarsdóttir sviðsstjóri neytendaverndar hjá Matvælastofnun.

Aflinn var frystur um borð. Dóra segir að hafi veiran borist í fiskinn með snertingu eða dropasmiti eigi ekki að vera hætta á því að hún verði virk þegar fiskurinn verður þíddur.

„Það eru rannsóknir sem benda til þess að veiran geti lifað lengi í frysti, en veiran þarf hýsil til að fjölga sér, hún getur alls ekki fjölgað sér. Hún gæti hugsanlega verið til staðar en nú eru þetta matvæli sem á að hita fyrir neyslu og hitameðhöndlunin myndi þá drepa hana ef hún væri til staðar, ef svo ólíklega vill til að hún sé til staðar.“