Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Yfir milljón COVID-19 smit í Argentínu

20.10.2020 - 03:52
epa08707076 A doctor checks a COVID-19 patient in the Intensive Care Unit at a hospital in Buenos Aires, Argentina, 29 September 2020. The Government of Argentina launched a detection plan in the province of Santa Fe, to find people infected with the virus as well as those who came in close contact with them. The program includes the optimization of intensive care units. The plan, launched in Buenos Aires at the beginning of the pandemic, is now spreading to provinces such as Santa Fe, one of the districts where the virus is spreading at a faster rate.  EPA-EFE/Juan Ignacio Roncoroni
 Mynd: epa
Argentína varð í gær fimmta ríkið í heiminum, þar sem fleiri en milljón manns hafa greinst með COVID-19. Yfir 40 milljónir hafa nú greinst með veiruna á heimsvísu.

Heilbrigðisyfirvöld í Argentínu greindu frá því í gærkvöld, að 1.002.662 kórónaveirusmit hefðu verið staðfest þar í landi frá upphafi faraldursins og 26.716 dauðsföll rakin til sjúkdómsins. Johns Hopkins háskólinn í Maryland birtir sömu tölur á upplýsingavef sínum um þróun farsóttarinnar.

Daglegum smitum hefur fjölgað jafnt og þétt í Argentínu frá því í sumar og dauðsföll hafa verið um og yfir 400 á dag að meðaltali það sem af er október, eftir að hafa fækkað mjög í september.

Yfir 40 milljónir smita í heiminum

Ekkert lát er á útbreiðslu farsóttarinnar, sem nú geisar heitast í Evrópu og Ameríkunum tveimur. Fjöldi staðfestra COVID-19 tilfella í heiminum fór yfir 40 milljónir í gærmorgun og rúmlega ellefu hundruð þúsund manns hafa dáið úr sjúkdómnum. 

Bandaríkin, Indland, Brasilía og Rússland eru einu ríkin sem skráð hafa fleiri smit en Argentína. Rúmar 8,2 milljónir tilfella hafa verið staðfest í Bandaríkjunum, 7,55 milljónir á Indlandi, 5,25 milljónir í Brasilíu og 1,4 miljónir í Rússlandi.

Fjöldi smita á Spáni yfir milljón á næstu dögum

Spánn er það land sem kemur næst á eftir Argentínu á hinum dapurlega lista yfir fjölda þeirra sem smitast hafa af COVID-19 og ekki langt í að milljón smita múrinn verði rofinn þar í landi. Nær 975.000 hafa greinst með sjúkdóminn þar í landi samkvæmt gögnum Johns Hopkins og yfir 10.000 smit hafa greinst þar daglega upp á síðkastið.

Upplýsingavefurinn Worldometers.info segir smitin reyndar þegar orðin fleiri en milljón á Spáni, og raunar fleiri en í Argentínu, eða nær 1.016.000.