Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Óvenjulegt að fá svona mikla og langa skjálftahrinu“

20.10.2020 - 19:40
Mynd: RÚV / RÚV
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir skjálftann sem reið yfir í dag hafa varað lengur og verið kröftugri en aðrir skjálftar sem hann hefur fundið. „Það nötraði allt og skalf,“ segir hann. Þá hafi Suðurnesjamenn fundið fyrir mörgum eftirskjálftum. „Það er óvenjulegt að fá svona mikla og langa skjálftahrinu.“

Aðgerðastjórn almannavarna á Suðurnesjum kom saman í dag klukkan hálf fjögur í dag og fór yfir stöðu mála. Sem betur fer hafi engin slys orðið á fólki eða nokkuð tjón.

„Fólk er náttúrulega orðið ýmsu vant hér en það eru alltaf einhverjir sem verða hræddir og bregður en heilt yfir held ég að Suðurnesjamenn séu bara rólegir yfir þessu og taka þessu bara þannig séð með stóískri ró,“ segir Kjartan.