KSÍ: Farsælast fyrir hreyfinguna í heild sinni

Mynd: RÚV / RÚV

KSÍ: Farsælast fyrir hreyfinguna í heild sinni

20.10.2020 - 20:57
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir að varla verði hægt að klára Íslandsmótin í fótbolta ef bann við æfingum fótboltaliða á höfuðborgarsvæðinu verður ekki aflétt fyrir 3. nóvember. KSÍ hefur fundið fyrir miklum þrýstingi frá knattspyrnufélögum í landinu vegna ákvörðunar um framhaldið. Guðni segir það farsælast fyrir hreyfinguna í heild sinni að stefna á að klára mótin.

Forysta KSÍ hefur fundað stíft síðustu daga því mikill þrýstingur hefur verið á sambandinu að taka ákvörðun um hvort Íslandsmótin skuldi blásin af eða gerð verði tilraun til að klára mótin. Ekkert hefur verið spilað á Íslandsmótunum síðan 7. október og æfingabann er í gildi á höfuðborgarsvæðinu sem setur stórt strik í reikninginn hjá mörgum fótboltaliðum.

Áskorun sem okkur fannst við þurfa að taka

KSÍ setti ákvæði í reglugerð í sumar vegna kórónuveirufaraldursins um að Íslandsmótunum skyldi ljúka eigi síðar en 1. desember. Það var gert með það fyrir augum að keppni í deildunum gæti mögulega dragast á langinn vegna ástandsins. 

„Við erum komin langleiðina og erum búin að ljúka rúmlega 90 prósent leikjanna í öllum deildum. Við vildum stefna á að klára mótin af tillitssemi við stöðu liðanna sem eru að berjast á toppi og botni deildanna. Þetta er ákveðin áskorun sem okkur finnst við þurfa að taka saman."

Mikill þrýstingur á KSÍ

Guðni játar því að knattspyrnusambandið hafi fundið fyrir miklum þrýstingi frá félögum sem vilja að mótin yrðu blásin af núna strax.

„ Jú við fundum fyrir því. Þetta var auðvitað mjög erfið ákvörðun því það eru vissulega sjónarmið og rök fyrir því að segja þetta gott í því  mótlæti sem við höfum þurft að takast á við."

Þetta verður áfram erfitt

Ekkert hefur verið leikið á Íslandsmótunum í fótbolta síðan 7. október þegar hertar sóttvarnarreglur tóku gildi og ef keppni hefst að nýju í byrjun nóvember hafa liðin ekki spilað í nærri mánuð.

„Við erum að stöðva æfingar og leiki í landshlutum í verulega langan tíma sem gerir þetta mjög erfitt og þetta verður áfram erfitt." 

Farsælast fyrir hreyfinguna í heild sinni

Guðni segir að í ljósi erfiðrar stöðu hjá vissum félagsliðum hafi komið til greina að blása deildirnar af.

„Það var alveg skoðað hjá okkur en á endanum þurftum við að taka ákvörðun og við töldum það farsælast fyrir hreyfinguna í heild sinni að halda áfram leik og stefna á að klára mótin."

Ekki hægt að bíða lengur en til 3. nóvember

Framhald Íslandsmótsins veltur nú alfarið á því að takmarkanir heilbrigðsmálaráðherra verði afléttar eigi síðar en 3. nóvember.

„Að því gefnu að við fáum að hefja æfingar og leik þá. Þá getum við klárað þetta. Ef það verður ekki þá er sú staða uppi að við getum illa klárað mótin."

Liðin fá nokkra daga til æfinga

Guðni segir að þó sóttvarnartakmörkunum verði aflétt 3. nóvember verði ekki hægt að hefja keppni að nýju strax þann dag því æfingabann er í gildi á höfuðborgarsvæðinu.

„Ég held við verðum auðvitað að gefa liðunum nokkra daga eða eins langan tíma og mögulegt er eins og það myndi passa inn í leikjaplan. Það er kannski aðeins meira svigrúm með neðri deildirnar. Við viljum ljúka leik í neðri deildunum í fyrri hluta nóvember en með efri deildirnar er þetta vandasamt vegna landsleikja og fleiri leikja í úrvalsdeild karla sérstaklega. Við þurfum að meta hvaða svigrúm við höfum en við höfum ekki mikinn tíma. Það er ljóst.

Vonum bara að veðurguðirnar verði okkur hliðhollir

KSÍ skoðaði ýmsa anga þegar ákvörðunin var ígrunduð, m.a. veðurfar í nóvember með það f yrir augum hvort hægt sé að spila fótbolta utandyra.

„Svo er veður líka oft ágætt í nóvember. Við höfum kannað það aðeins. Meðalhiti á höfuðborgarsvæðinu er yfir tvær gráður. Stundum er stillt og ágætis veður en stundum kemur líka aftakaveður um land allt. Við vitum að við þurfum að takast á við áskoranir hvað þetta varðar. Mögulega að spila á hlutlausum völlum og takast á við slæm veður. Þetta mun taka dálítið á og við gerum okkur grein fyrir því. Við vonum bara að veðurguðirnar verði okkur hliðhollir."

Staðan í deildunum stendur verði keppni hætt

Fari svo að Íslandsmótin verði blásin af segir Guðni að núverandi staða í deildunum verði látin gilda sem lokastaða.

„Við erum komin fram yfir tvo þriðju hluta af mótunum en það var skilyrði sem við settum fyrir því mót skyldi gilda. Niðurstaðan getur því verið góð og gild í deildunum þótt að við þyrftum að hætta. Þá myndi staða liðanna gilda hlutfallslega miðað við stigatölu þeirra og lið að öllu óbreyttu fara upp um deild eða niður um deild.

Tengdar fréttir

Innlent

Þetta má og má ekki frá deginum í dag

Fótbolti

Íslandsmótið fer aftur af stað í nóvember