Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Írar haldi sig heima nema brýna nauðsyn beri til annars

20.10.2020 - 05:48
epa08751295 Maddens bar in Belfast gets a final clean out as shops, bars restaurants and hairdressers are just some of the businesses to shut down in Belfast, Northern Ireland, Britain, 16 october 2020. Due to high levels of COVID-19 infections, Northern Ireland's authorities imposed a four week tighter restrictions with shops, bars restaurants and hairdressers, among other businesses, as Belfast city goes into a form of lockdown from 16 October 2020.  EPA-EFE/MARK MARLOW
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Írsk stjórnvöld kynntu í gærkvöld ströngustu sóttvarnaaðgerðir sem gripið hefur verið til í Evrópulandi í þessari bylgju kórónaveirufaraldursins. Fimmta viðbúnaðarstigi hefur verið lýst yfir í landinu vegna aukinnar útbreiðslu veirunnar að undanförnu. Nýju sóttvarnareglurnar taka gildi á miðnætti annað kvöld og eiga að gilda í sex vikur.

Fólk á helst að vera heima og alls ekki fara langt

Fólk er hvatt til að halda sig eins mikið heima og það mögulega getur og samkvæmt reglunum má fólk ekki fara lengra en fimm kílómetra frá heimili sínu, nema til að sækja vinnu eða sinna öðrum, sannanlega brýnum erindum.

Öllum verslunum sem ekki selja nauðsynjavörur verður lokað, rakara- og hárgreiðslustofur, leik- og kvikmyndahús, líkamsræktarstöðvar og fjöldi annarra fyrirtækja þurfa að leggja niður starfsemi. Krár og veitingastaðir mega ekki bjóða gestum til sætis heldur eingöngu selja meðtökumat og -drykki og leyfilegur hámarksfjöldi farþega í almenningssamgöngum verður einungis fjórðungur af því sem farartækin bera.

Ekki jafn víðtækar lokanir og í vor

Írar gripu til mikilla og strangra takmarkana í fyrstu bylgju farsóttarinnar í vetur og vor; svo harðra, að atvinnulífið lamaðist nær algjörlega um hríð. Ekki verður gengið jafn langt að þessu sinni, því skólar fá að starfa áfram, og það gildir líka um ýmsa starfsemi aðra, sem talið er mikilvægt að halda gangandi, svo sem byggingabransann og flestan iðnað annan, auk þess sem hótel og gistihús verða áfram opin.