
Smitfjöldi hefur margfaldast frá mánaðamótum
Belgía varð illa úti í fyrstu bylgju farsóttarinnar í vetur og vor og nú stefnir aftur í óefni því smitum fjölgar hratt. 1. október greindust þar 1.337 smit, í gær voru þau næstum 11.000 og nýgengi smita er 757 á hverja 100.000 íbúa.
Ráðherrann segir mikla hættu á að fárið fari endanlega úr böndunum svo ekki verði neitt við ráðið, og því nauðsynlegt að grípa harkalega í taumana.
Útgöngubann, lokun veitingahúsa og (næstum alveg) bannað að knúsa
Algjört útgöngubann frá miðnætti til fimm að morgni tók gildi í dag og mun gilda næstu fjórar vikur hið minnsta. Öllum veitinga- og kaffihúsum hefur verið gert að loka dyrum sínum fyrir gestum, en heimilt er að selja meðtökumat til klukkan tíu á kvöldin.
Öllum verslunum er gert að loka í síðasta lagi klukkan 22 og aðeins fjórar manneskjur mega koma saman á einum stað. Það sem meira er, þá verður fólk að halda sig við sama fjögurra manna hópinn tvær vikur í senn - og láta sér nægja að knúsa eina manneskju.
Sala á áfengi er bönnuð eftir átta á kvöldin og fólki gert skylt að sinna vinnu sinni heima hjá sér, sé þess nokkur kostur. Grímuskylda er líka víða í gildi og svo mætti áfram telja.
Yfir 220.000 COVID-19 smit hafa verið staðfest í Belgíu til þessa og rúmlega 10.400 dauðsföll verið rakin til sjúkdómsins.