Þórsarar segja þjálfaranum upp eftir einn leik

Mynd með færslu
 Mynd: thorsport.is

Þórsarar segja þjálfaranum upp eftir einn leik

19.10.2020 - 22:25
Körfuknattleiksdeild Þórs sendi í kvöld frá sér tilkynningu um að Andrew Johnston láti af störfum sem þjálfari liðsins. Þór hefur einungis leikið einn leik á tímabilinu.

Uppsögn Johnston er fyrst og fremst fjárhagslegs eðlis samkvæmt tilkynningunni en mörg lið berjast í bökkum sökum kórónuveirufaraldursins og tekjutapsins tengt honum.

Fréttatilkynning frá KKD ÞÓRS

Andrew Johnston hefur látið af störfum sem þjálfari meistaraflokks karla hjá Þór Akureyri frá og með deginum í dag. Uppsögn Andrews er fyrst og fremst fjárhagslegs eðlis en Körfuknattleiksdeild Þórs treysti sér ekki í ljósi þeirrar stöðu sem nú er vegna Covid 19 að standa við gerða samninga við hann. Þótti því ekki forsvaranlegt að ætlast til þess að hann myndi starfa við þær aðstæður. 

Uppsögnin gerir það að verkum að rekstur kkd Þórs er í jafnvægi og ekki mun koma til fleiri uppsagna. Félaginu þykir hins vegar mjög miður að þetta sé niðurstaðan en hún er engu að síður nauðsynleg. Allir Þórsarar óska Andy alls hins besta í þeim verkefnum sem hann tekur sér fyrir hendur.

Nýr þjálfari liðsins verður kynntur á næstu dögum. 

Stjórn KKD Þórs.