Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ráðherra minnir borgarstjóra á skuldbindingar sínar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segir það ótímabært og andstætt samkomulagi ríkisins og Reykjavíkurborgar að fjárfesta í flutningi fyrir kennslu- og einkaflug frá Reykjavíkurflugvelli og yfir á nýjan flugvöll í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Hann minnir borgina jafnframt á sínar skuldbindingar fyrir flugvöllinn í Vatnsmýri.

Þetta kemur fram í bréfi frá Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu og sveitarstjórnarráðherra, til Dags B. Eggertssonar borgarstjóra sem lagt var fram á fundi borgarráðs fyrir helgi. Ráðherra svarar þar erindi borgarstjóra frá í sumar um að ríkið finni nýjan stað fyrir slíkt flug án tafar.

Ráðherra vísar í bréfi sínu til samkomulags sem undirritað var í lok nóvember í fyrra, þar sem ríki og borg samþykktu að rannsaka flugskilyrði í Hvassahrauni, með það að markmiði að þar verði reistur nýr innanlandsflugvöllur. Ráðherra minnir borgarstjóra í bréfinu á skuldbindingar borgarinnar, um að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar á meðan rannsóknir í Hvassahrauni standa yfir.

Ráðherra óskar jafnframt eftir upplýsingum um þær skipulagsbreytingar sem borgin skuldbatt sig að gera til að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar, þar sem sagði að „ekki yrði farið í frekari styttingar eða lokanir á brautum þar fyrr en nýr flugvöllur væri tilbúinn til notkunar.“

Reynist nýr flugvöllur í Hvassahrauni hins vegar ekki vænlegur kostur mun þurfa að kanna aðra möguleika, segir í bréfi ráðherra.

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýri.

Ósammála um kjarna málsins

Borgarfulltrúar virtust lesa svarbréf ráðherra með mismunandi hætti, miðað við bókanir á fundi borgarráðs. Fulltrúar meirihlutans lögðu fram bókun um að ljóst sé af bréfinu, að ráðuneytið stefnir að flutningi æfinga-, kennslu- og einkaflugs af Reykjavíkurflugvelli, hvort sem það yrði í Hvassahraun eða að kanna þurfi aðra möguleika. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins bókuðu það hins vegar að kjarni málsins væri sá að ótímabært væri að fjárfesta í flutningi flugsins á þessum tímapunkti. 

Meirihlutinn bókaði þá á móti að kjarni málsins væri þvert á móti sá að hugurinn stefndi úr Vatnsmýri bæði hjá ríki og borg. Það færi eftir því hvað kæmi úr veðurprófunum í Hvassahrauni í vetur hvenær slíkt yrði.

Talaði um magalendingu borgarstjóra

Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins lagði fram harðorða bókun og talaði um magalendingu borgarstjóra, þegar hann óskaði eftir því að ráðuneytið fyndi nýjan stað fyrir kennslu- og einkaflug „þegar í stað.“

Þá segir í bókun að ráðherra virðist pirraður á hugmyndum borgarstjóra fyrst hann óski eftir að verða upplýstur um það hvernig borgin ætli að standa við samkomulagið um að tryggja áframhaldandi rekstur Reykjavíkurflugvallar.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókaði að ljóst sé að framtíð flugvallarins verður í pattstöðu næstu árin ef Hvassahraun reynist ekki vænlegur kostur. Þá bætist við önnur 20 ár þar sem flugvöllurinn verði í Vatnsmýri sem sé staða sem margir fagna en aðrir ekki, segir í bókun.