Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Í fimm vikna síbrotagæslu fyrir þrjú vopnuð rán

Mynd með færslu
Af vettvangi handtökunnar í Borgartúni á laugardag. Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Átján ára karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag úrskurðaður í fimm vikna svokallaða síbrotagæslu, eða til 16. nóvember, að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Maðurinn var handtekinn í þriðja sinn á rúmum sólarhring í gærkvöld, eftir að hann hafði ógnað starfsmanni Pylsuvagnsins í miðborginni með hnífi og þvingað hann til að afhenda sér fé. Fyrr um daginn rændi hann Krambúðina í Mávahlíð og komst undan á hlaupum.

Á laugardag rændi maðurinn verslunina Euro Market við Hlemm og notaði þar einnig hníf. Hann var handtekinn skömmu síðar á Austurvelli, en var látinn laus eftir yfirheyrslur.

Skilyrði fyrir að úrskurða menn í síbrotagæslu eru að menn séu virkir í afbrotum, hafi áður hlotið dóm og muni líklega fá óskilorðsbundið fangelsi.

Fréttin hefur verið uppfærð. Röng dagsetning barst frá lögreglu um lengd síbrotagæslunnar.