Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Flytja fanga frá Akureyri fyrir hundruð þúsunda

Mynd: RÚV / Björgvin Kolbeinsson
Kostnaður lögreglu við að flytja fanga í gæsluvarðhald frá Akureyri til Reykjavíkur er áætlaður um 240 þúsund á hvern fanga eftir að fangelsinu á Akureyri var lokað. Lögreglustjórinn segir þetta fyrirkomulag ekki ásættanlegt en flytja þurfti þrjá fanga í gæsluvarðhald frá Akureyri til Reykjavíkur í síðustu viku.

15 til 20 sakborningar á ári 

Sparnaður Fangelsismálastofnunar við lokun fangelsisins á Akureyri er áætlaður um 65 milljónir á ári. Ákvörðunin var umdeild og eftir athugasemdir lögreglunnar var ákveðið fjölga þar um fjögur stöðugildi til að sinna skammtímaföngum sem fangaverðir báru áður ábyrgð á. En þar með er ekki allur kostnaður talinn því nú þarf að senda alla fanga sem úrskurðaðir eru í gæsluvarðhald í fangelsið á Hólmsheiði. Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri segir í skriflegu svari til fréttastofu að árlega séu 15-20 sakborningar embættisins úrskurðaðir í gæsluvarðhald. 

Tvær dýrar ferðir í síðustu viku

Á miðvikudag í síðustu viku  voru tveir karlmenn úrskurðaðir í varðhald grunaðir um frelsissviptingu. Til þess að koma þeim á Hólmsheiði sendi Ríkislögreglustjóri fjóra starfsmenn til Akureyrar með flugi. Tveir bílaleigubílar voru teknir á leigu, einn fyrir hvorn fanga og ekið frá Akureyri í fangelsið á Hólmsheiði. Áætlaðir kostnaður við ferðina er um 475 þúsund.

Tveimur dögum síðar var annar maður úrskurðaður í gæsluvarðhald, grunaður um ofbeldisbrot. Fjórir menn tóku þátt í að flytja þann mann. Tveir lögreglumenn á Akureyri óku með hann hálfa leiðina til Reykjavíkur. Þar mættu þeim tveir lögreglumenn frá Ríkislögreglustjóra sem tóku við og fluttu hann á Hólmsheiði. Áætlaður kostnaður við þann flutning er um 240 þúsund.

Málið ekki leyst eftir að fangar eru komnir á Hólmsheiði

Þegar búið er að flytja fangann á Hólmsheiði með tilheyrandi kostnaði er málið ekki úr sögunni. Því þeir aðilar sem fara með rannsókn málsins eru staðsettir á Akureyri og þurfa því að fara suður til að yfirheyra. Kostnaður við hverja yfirheyrslu er samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni áætlaður um 200 þúsund krónur. 

Hafa gert athugasemdir við stöðuna

Páley segir lögregluna hvorki hafa fengið viðbótarmannskap til að sinna gæsluvarðhaldsföngum né til þess að flytja þá á Hólmsheiði. Hún segir embættið hafa gert athugasemd við fyrirkomulagið.