Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vopnað rán í Hlíðunum - handtekinn af sérsveit í gær

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Maður ógnaði starfsmanni verslunar Krambúðarinnar i Mávahlíð með eggvopni skömmu eftir hádegi í dag, þvingaði hann til að afhenda sér fé og komst undan á hlaupum. Talið er að um sama mann sé að ræða og var handtekinn af sérsveit ríkislögreglustjóra á Austurvelli í gær eftir vopnað rán í versluninni Euro Market við Hlemm.

Í fyrri útgáfu fréttarinnar sagði að maðurinn væri líklega sá sami og rændi skyndibitastaðinn Chido á Ægisíðu í fyrradag. Að sögn Jóhanns Karls Þórissonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, bendir allt til að svo sé ekki. Báðir menn hafi verið grímuklæddir, en nokkuð ólíkir að stærð.

Eftir handtökuna í gær var maðurinn vistaður í fangageymslum, hann yfirheyrður og síðan látinn laus í morgun.

Mannsins er nú leitað, en ekki hefur verið tekin ákvörðun um að lýsa eftir honum.

„Hann komst undan með 10.000 - 20.000 krónur. Starfsmanninn sakaði ekki, en hann er býsna skelkaður,“ segir Jóhann Karl.

Jóhann Karl segir að það, að svipuð aðferð hafi verið notuð í báðum ránunum, sé vísbending um að um sama mann sé að ræða. „Okkur grunar að þetta sé sami maðurinn og við höfum sett aukinn kraft í leitina að honum.“

Fréttin hefur verið leiðrétt