Upphafið að endinum og enn í ljósinu áratugum síðar

Mynd: Jonathan Demme / Stop Making Sense

Upphafið að endinum og enn í ljósinu áratugum síðar

18.10.2020 - 10:00

Höfundar

Um þessar mundir eru 40 ár frá því að hryggjarstykkið í höfundarverki Talking Heads leit dagsins ljós – þar sem það hefur haldið sig síðan. Platan Remain in Light kom út 8. október árið 1980 og ber nafn með rentu því ljóskastarar, tónlistargrúskarar og grúvhundar hafa ekki misst sjónar henni í þessa fjóra áratugi sem liðið hafa frá útgáfunni.

Skífan var há- og endapunktur samstarfs hljómsveitarinnar við breska upptökustjórann Brian Eno og þar runnu saman pönk, fönk, afróbít og óreiða; þar sem heimsendadrungi og kafkaísk firring Davids Byrnes gekk hönd í hönd við óstöðvandi grúv og transvæna takta ryþmaparsins- og hjónanna Chris Frantz og Tinu Waymouth. En upptaka og eftirvinnsla plötunnar gekk ekki átakalaust fyrir sig og þar lét fyrst á sér kræla ágreiningur milli Byrnes og ryþmahjónanna sem leiddi til endaloka hljómsveitarinnar áratug síðar, og hún hefur ekki komið saman aftur síðan.

Talking Heads varð til í listaháskóla á Rhode Island í New York árið 1973 þegar skoski söngvarinn og gítarleikarinn David Byrne kynntist trommaranum Chris Frantz og kærustu hans Tinu Waymouth sem kenndi sjálfri sér á bassa með því að hlusta á Susie Quattro-plötur til að fylla upp í hljómsveitina. Þau léku á sínum fyrstu tónleikum í goðsagnakennda pönkbælinu CBGB‘s árið 1975 þar sem þau hituðu upp fyrir ræflarokkarana í Ramones. Þau komust á samning hjá Sire útgáfunni árið 1976 og í mars 77 gekk gítar- og hljómborðsleikarinn Jerry Harrison til liðs við sveitina. Þau gáfu út sína fyrstu breiðskífu Talking Heads: 77 í september sama ár og raðmorðingjaslagarinn Psycho Killer krafsaði sig inn á topp hundrað Billboard-listann hvers hikstandi bassalína er ógleymanleg öllum sem á hafa hlýtt.

Árið 1978 markaði upphaf samstafs sveitarinnar við breska upptökustjóranum Brian Eno. Hljómur plötunnar More Songs About Buildings and Food var mun fágaðari en þeirrar fyrstu og lagði áherslu á fínni og fönkaðri blæbrigði í spilamennskunni, og á henni var meðal annars að finna stórfína ábreiðu af sálarveislunni Take Me to the River eftir Al Green.

Þau unnu aftur með Brian Eno á Fear of Music árið 1979 þar sem þau fóru enn þá lengra í myrkum síðpönksæfingum, fönkuðum grúvum og síkadelískri tilraunamennsku og í upphafslaginu I Zimbra spreyttu þau sig í fyrsta skipti á flóknum afrískum fjöltöktum, lagi sem sló eins konar upptakt að þeirri afmælisplötu sem er til umræðu hér og kom út ári síðar, Remain in Light.

Sumarið 1980 fóru Talking Heads í Compass Point-upptökuverið á Bahamas-eyjum ásamt Brian Eno þar sem þau lögðu grunninn að Remain in Light. Þegar þarna var komið sögu var tónlist sveitarinnar komin ljósárum frá CBGB‘s-pönkrótunum og var undir miklum áhrifum frá nígeríska afróbít-meistaranum Fela Kuti, með lager af slagverki í fjölofnum töktum, blökkum fönkæfingum og rafrænni tilraunamennsku. Í upptökunum nutu þau meðal annars aðstoðar avant-garde-trompetleikarans Jons Hassels, sálarsöngkonunnar Nonuh Hendryx og gítargaldramannsins Adrians Belew sem á eftirminnilegar innkomur á plötunni með hugvíkkandi andgítarsóló-um sem heyrast glöggt í upphafslaginu Born Under Punches.

Allt ferlið var ólíkt fyrri plötum þar sem hljómsveitin fór í hljóðver og spilaði lög sem Byrne hafði samið áður. Þvert á móti fæddist Remain in Light í sameiginlegum djamm-sessjonum í stúdíóinu á Bahamas-eyjum þar sem hljómsveitin grúvaði tímunum saman og svo voru bestu kaflarnir valdir eftir á til að endurtaka og byggja lögin á. Það er lítið um drastískar hljómabreytingar og eiginlegar lagasmíðar en veldisvaxandi taktdampur heldur henni yfir sjávarmáli og ríflega það.

Í raun mætti segja að fyrri hlið vínylplötunnar sé öll ein stigmagnandi og vægðarlaus grúvkeyrsla sem engu eirir. Crosseyed and Painless er í hröðu tempói með feikilega flóknum og samofnum ásláttarmunstrum sem Fela Kuti gæti verið stoltur af og fönkuðum kjúklingagíturum, sem fjarræn rödd Davids Byrne ýlfrar yfir: „Lost my shape / Trying to act casual / Can‘t Stop I might and up in a hospital / Changing my shape / I feel like an accident / Their back / To Explain their Experience.  

David Byrne glímdi í upphafi við ritstíflu þegar hann reyndi að finna upp á orðum til að syngja yfir þessi óvenjulegu lög sem Talking Heads gátu af sér í upptökuverinu á Bahamas-eyjum sumarið 1980. Hann tók upp sönginn nokkru síðar í New York og textarnir voru ekki út frá þemum eða persónum heldur mestmegnis abstrakt hugsanaflæði undir áhrifum frá afrískum goðsögnum og þjóðsögum. Söngstíllinn var sömuleiðis óhefðbundinn og út um allt, stundum geltandi í stakkató-takti, einstaka sinnum rappandi, talandi í samræðustíl, rantandi eldmessur eins og evangelískur prédikari, eða syngjandi gospelið í grúvskrímslinu Great Curve; The world moves on a Womans Hips / The World moves and is swivels and bops.

Fyrri hlið plötunnar líkur svo á laginu sem nú er fyrir löngu orðið klisjuklassískt en var þó ekki neinn risasmellur þegar það kom út, Once in a Lifetime. Þar ber sögupersóna Davids Byrne lóminn yfir tilgangsleysi allra hluta og hvernig stór bifreið, fallegt hús og yndisfríð kona færa hann engu nær því að leysa lífsgátuna, og allt er eins og það áður var.

Síðari hlið plötunnar er svo talsvert hægari og mislyndari, ekki nándar nærri jafn dansvæn og sú fyrri, en þar glitra þó textar Byrne og hljóðlandslag Brians Eno eins og fátt annað í tónlistarsögunni í góðum heyrnartólum. En ferlið gekk ekki átakalaust fyrir sig heldur afhjúpaði núning milli söngvarans Davids Byrne og Chris Frantz, Tinu Waymouth og Jerrys Harrison. Upphaflega var samið um að þau öll, auk Brians Eno, væru skráð fyrir lögunum en á umslagi fyrsta upplags plötunnar voru bara Brian Eno og David Byrne titlaðir lagahöfundar, sem fór öfugt ofan í restina af bandinu. Stuttu síðar gáfu Eno og Byrne út heimstónlistartilraunaplötuna My Life in the Bush of Ghosts og hjónin Chris Frantz og Tina Waymouth stofnuðu stórskemmtilega elektróhipphopp-verkefnið Tom Tom Club. Talking Heads áttu eftir að gera frábæru tónleikamyndina Stop Making Sense 1983 ásamt Johnathan Demme, og gefa út fjórar breiðskífur í viðbót áður en þau lögðu formlega upp laupana árið 1991, en þau náðu aldrei viðlíka hæðum og á Remain in Light aftur.

Það er augljóslega ekki gott á milli Byrne og Frantz, Waymouth pg Harrison því á þeim tæpum þremur áratugum síðan Talking Heads hætti hafa þau ekki enn þá komið saman aftur að undanskildu einu skipti þegar þau léku í athöfninni þegar bandið var vígt inn í frægðarhöll rokksins árið 2002. Miðað við eldheita aðdáendur þeirra og virðingu sem hefur vaxið með árunum er rétt svo hægt að ímynda sér hvað hátíðir eins og Coachella og Primavera hafa boðið þeim mikla peninga fyrir að koma saman aftur – en af því hefur ekki orðið. Bara í sumar gaf trommarinn Chris Frantz út ævisögu sína sem hann nefnir einfaldlega Remain in Love þar sem hann lýsir ástríku hjónabandi sínu og Tinu Waymouth en skýtur líka föstum skotum á David Byrne sem hann segir stjórnsaman og allt frá byrjun tregan til að viðurkenna framlög annarra til lagasmíða Talking Heads.

En í dag syrgjum við ekki endalok og illindi milli hinna talandi hausa heldur fögnum þeirra helsta afreki. Remain in Light hefur verið í sviðsljósinu í fjóra áratugi og verður enn um ókomna tíð. Ég fer þess á leit við ykkur kæru lesendur að þið setjið einfaldlega plötuna á fóninn og hækkið rækilega, og ekki væri úr vegi ef þið hoppuðuð oggulítið í takt.

Tengdar fréttir

Tónlist

Stafræn afskræming á skandinavískum sársauka

Tónlist

Ólympískur sviti og erótík hjá Ultraflex

Tónlist

Besta tónleikamynd allra tíma

Tónlist

David Byrne heldur á heila á Coachella