Lýsa óhug yfir viðbrögðum bandarískra stjórnvalda

18.10.2020 - 08:56
Mynd með færslu
 Mynd: Jim Gathany - Wikimedia Commons
Yfir eitt þúsund núverandi og fyrrverandi embættismenn sérstakrar faraldursdeildar hjá sóttvarnarmiðstöð Bandaríkjanna, CDC, skrifa undir opið bréf þar sem lýst er óhug yfir viðbrögðum bandarískra stjórnvalda við heimsfaraldri kórónuveiru. Þar á meðal eru tveir fyrrverandi forstjórar stofnunarinnar.

Í bréfinu, sem birt er í fréttabréfi sóttvarnasérfræðinga, er einnig kallað eftir því að sóttvarnamiðstöðin verði leiðandi í viðbrögðum við COVID-19. Þá sé fordæmalaust og hættulegt hversu mikið vanti upp á leiðtogahæfni stjórnvalda á landsvísu.  

Sóttvarnamiðstöð Bandaríkjanna hefur lengi verið álitin ein besta heilbrigðisstofnun heims og hefur verið leiðandi á alþjóðavísu í viðbrögðum við faröldrum. Traust til stofnunarinnar hefur dregist saman á þessu kjörtímabili, samkvæmt nýjum skoðanakönnunum, segir í frétt Wall Street Journal. 
 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi