Laxeldisgjöld miða við verð og hækka í þrepum til 2026

18.10.2020 - 15:32
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Talsmenn veiðifélaga á Austurlandi gagnrýna að Laxar í Reyðarfirði greiði ekki fyrir 10 þúsund tonna stækkun á eldisleyfi. Í Noregi hafi eldisfyrirtæki greitt 30 milljarða fyrir minna leyfi. Gjaldtaka hófst af laxeldi hér á landi um áramót. Gjaldið ræðst af verðinu sem fæst fyrir laxinn.

Í sumar staðfesti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nýtt áhættumat HAFRÓ sem heimilar 60% aukningu í laxeldi á Austfjörðum. Aukningin er í Seyðisfirði, Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði. Aðeins má ala ófrjóan fisk í Stöðvarfirði vegna nálægðar við Breiðdalsá en áhættumatið á ekki síst að takmarka áhættu á efnablöndun við villtan lax þar. Sigurður Max Jónsson, formaður veiðifélags Breiðdæla, óttast að þetta auki hættu á að eldislax blandist þeim villta. ,,Ég held að það sé óhjákvæmilega afleiðing af opnum sjókvíum að það getur sloppið fiskur. Þetta er náttúrulega gríðarlegt magn af fiski sem er verið að ala. Villti stofninn í þessari á er bara brotabrot af þessum fiskum sem er verið að ala og það þurfa nú ekki að sleppa margir til þess að mögulega geti orðið blöndun."

Segir Laxa fá 37 milljarða leyfi gefins

Fyrrverandi formaður veiðifélagsins, Gunnlaugur Stefánsson, skrifar harðorða grein á Vísi og gagnrýnir tíu þúsund tonna leyfisaukningu til Laxa í Reyðarfirði. Hann vísar til uppboðs á laxeldisleyfum í Noregi 20. ágúst. Þar hafi Salmar greitt 30 milljarða fyrir átta þúsund tonna leyfi. Miðað við það hafi íslensk stjórnvöld fært Löxum 37 milljarða á silfurfati, eins og hann orðar það.

Árleg gjöld af leyfunum hér

Á Íslandi eru laxeldisleyfi ekki boðin út, enn sem komið er, en það stendur til. Ríkið tekur gjald af hverju slátruðu kílói og gjaldtakan hófst um áramót. Gjaldið er lágt til að byrja með, aðeins einn sjöundi af fullu gjaldi en hækkar í skrefum til ársins 2026 og er verðtengt. 

Gjald fyrir 10 þúsund tonn verður 131 milljón miðað við óbreytt laxverð

Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi eru leyfin í Noregi til ótakmarkaðs tíma en á Íslandi eru þau til afmarkaðs tíma. Í Noregi standi til að hefja árlega gjaldtöku, sex krónur á kíló. Hér fari gjaldið í minnst 27 krónur á kíló þegar verð er í hæsta gjaldflokki og gjaldtakan er komin á að fullu. Við miðlungsverð yrði það 14 til 15,7 krónur á kíló en fer niður í 3,4 krónur eða lægra þegar verð er í lægsta flokki. Miðað við þetta gæti renta fyrir fullnýtta umrædda 10 þúsund tonna aukningu í Reyðarfirði orðið yfir 274 milljónir á ári ef verð nær hæsta flokki. Annars 157 til 140 milljónir á ári sé verð í miðflokki eða 34 milljónir eða lægra, sé verð í lægsta flokki. Nákvæm upphæð gjalds til ríkissjóðs ræðst af alþjóðlegu markaðsverði á atlantshafslaxi. 

Á þessu ári er er rentan aðeins einn sjöundi af því fulla gjaldi sem leggst á árið 2026 eða 1,87 krónur á kíló. Þannig myndi 10 þúsund tonna aukningin fullnýtt gefa tæpar 19 milljónir á þessu ári en 131 milljón árið 2026. Þar er miðað við það verð sem fékkst fyrir fiskinn á viðmiðunartímabili á seinni hluta síðasta árs. 

Þar að auki greiða laxeldisfyrirtæki í umhverfissjóð. Sá sjóður úthlutaði um 200 milljónum á þessu ári og voru gjöld í hann hækkuð um 67% um áramótin. Sú gjaldtaka miðar við útgefin leyfi og hækkar þegar leyfin stækka. 

Segir leyfisútboð í Noregi ekki sambærileg úthlutun á Íslandi

Einar K. Guðfinnsson starfar að fiskeldismálum hjá SFS. Hann segir að lengst af hafi fiskeldisleyfum verið úthlutað án endurgjalds í Noregi. Í útboðinu sem vísað sé til hafi verið um að ræða ótímabundin og framseljanleg leyfi. Útboðin sem hafi farið fram síðustu ár nái aðeins til brotabrots af þeim framleiðsluheimildum sem fyrirtækin hafi fengið í Noregi og séu því ekki sambærileg við gjaldtöku í fiskeldi á Íslandi þar sem leyfum er úthlutað til afmarkaðs tíma. Í nýjum lögum hér á landi sé kveðið á um að fiskeldisleyfin verði boðin út í framtíðinni. Þá fái ríkið væntanlega bæði tekjur af útboðum og árlegum gjöldum. 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi