Elítismi fyrir fólkið

Mynd: . / .

Elítismi fyrir fólkið

18.10.2020 - 11:43

Höfundar

„Við eigum að sýna samstöðu. Við eigum að haldast í hendur. Kannski ekki í bókstaflegri merkingu en í ritúelskri merkingu,“ segir rithöfundurinn Hermann Stefánsson í hugvekju sinni um lýðræði á tímum COVID.

Hermann Stefánsson skrifar:

Rithöfundurinn Ólafur Jóhann Ólafsson skrifaði fyrir skemmstu blaðagrein um kófið sem mér þótti áhugaverð. Eins og fara gerir um blaðagreinar varð ein setning fleyg, hún var svona: „[...] akademískar hugleiðingar um frelsi eru best geymdar þar til þessi plága er gengin yfir.“ Þótt talsverðan þrætuvilja þurfi til að agnúast út í önnur umfjöllunarefni greinarinnar — sem inniheldur auðvitað fleiri setningar — getur fólk auðvitað vera ósammála því að núna sé ekki tíminn til að ræða frelsi. En ég ætla ekki að vera ósammála neinu. Mér finnst Ólafi Jóhanni þvert á móti láta vel að höndla erfiða tóntegund, tóntegund yfirvegunar, tóntegund sem stappar í fólk stálinu, skýrir alvöru máls en er hughreystandi um leið. Í það minnsta er tómt mál að tala um frelsi einstaklingsins til að smita annað fólk af hugsanlega banvænum sjúkdómi.

En það flögraði hins vegar að mér að tíminn væri réttur til að hugleiða lýðræði, fremur en frelsi. Og til þess að hugleiða lýðræði þarf kannski fyrst að átta sig á fáeinum staðreyndum. Ein þeirra er sú að í lýðræðisríkjum gilda lög sem heimila ýmiss konar skerðingu á frelsi. Þar á meðal eru sóttvarnalög. Þau eru svolítið merkileg lesning. Ég veit ekki hvort allir hafa staðið klárir á þessu nema ég, en brot á sóttvarnalögum eða reglum sem settar eru samkvæmt þeim getur varðað fangelsi allt að þremur mánuðum. Sóttvarnalækni er heimil vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga. Hann getur beitt opinberum sóttvarnaráðstöfunum án þess að leita heimildar ráðherra ef hann álítur liggja á þeim, þótt hann þurfi að gera ráðherra viðvart sem fyrst. Í raun eru hendur ráðherra samkvæmt orðanna hljóðan nokkuð bundnar af því að hafa fengið tillögu sóttvarnalæknis. Sóttvarnalæknir getur — með aðstoð lögreglu eða án hennar — látið koma einstaklingi með valdi í einangrun. Hann þarf að bera þetta fljótlega undir héraðsdóm en getur þó haldið fólki án úrskurðar í 15 sólarhringa. Þetta eru í raun rýmri, skilyrðislausari og opnari heimildir en eru í lögum um sjálfræðissviptingu og nauðungarvistun.

Þannig virkar þingræðið

Þórólfur sóttvarnalæknir. Þessi viðkunnanlegi náungi sem tekur allri gagnrýni með stóískri ró og svarar með rökum. Þeir sem telja að Þórólfur og hans fólk hafi gengið alltof langt og skert frelsið fram úr öllu hófi, þeir sem vilja fá að hósta á annað fólk í friði þar sem þeim sýnist, þótt þeir kannski séu hálf sloj, gætu kannski velt því fyrir sér að Þórólfur hefur faktískt lagaheimildir til að láta stinga þeim fyrirvaralaust í grjótið ef hann sér ástæðu til og býður svo við að horfa.

Þá vaknar sú spurning hvort það sé lýðræðislegt að maður sem ekki er kosinn af þjóðinni hafi svo mikið vald. Tja, það er í það minnsta svo lýðræðislegt að það var meirihluti almennings sem kaus þingheim sem setti lögin, sem tóku gildi árið 1998 og enn taka breytingar gildi í janúar 2021. Þannig virkar þingræði, eða fulltrúalýðræði. Þjóðin velur fólk sem setur lög. Margt af því sem er ákveðið af þeim fulltrúum er hreinlega of flókið eða of langsótt til að almenningur hafi tíma eða yfirleitt löngun til að setja sig inn í það. Hver sat heima hjá sér og velti fyrir sér hugsanlegum heimsfaröldrum árið 2000 þegar þingið var að sýsla við sóttvarnarlög? Og ég þori að fullyrða að það eru ekki fleiri en tveir Íslendingar uppi í dag sem hafa almennilegan skilning á búvörulögum og búvörusamningi. Ég er sannarlega ekki annar þeirra.

En til að svara spurningu um lýðræði af af einhverju viti þarf að gangast við því að lýðræði og lýðræði er ekki sami hluturinn. Ekki bara eru kosningakerfi svokallaðra lýðræðisríkja gerólík (sbr. t.d. Bandaríkin, kosningaréttt og samhengi hans við fangelsisdóma), heldur eru til fyrirtæki á borð við Cambridge Analytica sem hafa nýtt sér miklu meira magn persónugreinanlegra upplýsinga en nokkurt þríeyki gæti órað fyrir að komast í námunda við samkvæmt nokkrum lögum — og án nokkurs vafa nýtt sér þær til að hafa áhrif á úrslit kosninga. Þetta eru upplýsingarnar sem við öflum með sjálfsnjósnum og gefum svo Facebook með hverri hreyfingu, hverjum smelli á hvern hlekk og hverju læki. Þannig er hægt að sigta út einn einstakling og stjórna því hvað hann sér. Samkvæmt nýrri heimildamynd á Netflix, The Great Hack, er Cambridge Analytica beinlínis ábyrgt fyrir bæði sigri Trump og Brexit og í henni eru viðtöl við fólk sem vann við þetta. Enn nýrri heimildamynd, The Social Dilemma, birtir enn ísjárverðari mynd af lýðræði á tímum tækni sem áhöld eru um hvort mannsheilinn ráði yfirleitt við. Án þess þó að sú mynd sé neitt svartagallsraus eða einfaldanir, þar talar einnig fólk sem vann við þetta. Maðurinn sem bjó til læk-takkann en hefur séð sig um hönd. Og félagsmiðlasérfræðingur sem lýsir tækniástandinu sem í senn dystópíu og útópíu — annars væri það ekkert hættulegt.

Upprisa einræðis í upphafi 20. aldar

Áhyggjur af lýðræði eru ekki sögulegt einsdæmi. Full oft er vísað í Þýskaland nasismans. Þegar fyrri heimstyrjöldin braust út voru sett herlög hvarvetna. Clemenceau réði öllu í Frakklandi, Lloyd George í Englandi og Wilson í Bandaríkjunum. Þeir gerðu fátt eitt nema eftir tillögum herforingja sinna. Þær ákvarðanir voru ekki bornar undir kjör þingheims, hvað þá almennings. Það er þó ekki fyrr en eftir stríð að alræði fer að breiðast verulega út á Vesturlöndum og ekki aðeins vegna stríðs og efnahagserfiðleika heldur einnig lýðræðisþreytu, vonbrigða með óhæfi þingstjórna. Franklin D. Roosevelt lýsir því yfir í innsetningarræðu sinni árið 1933 að hann íhugi að taka sér einræðisvald sem forseti — við gífurleg fagnaðarlæti, enda höfðu stuðningsmenn þrýst á hann. Árið 1929 tók við einvaldskonungur í Júgóslavíu vegna hörmulegrar reynslu af þingstjórn. Konungseinræði kemst á í Rúmeníu 1931. Primo de Rivera verður um margt einvaldur á Spáni 1923 og svo Franco 1939. Í Póllandi verður Pilsudski einvaldur að heita má 1926 og skiptir ráðherrum út oftar en Trump. Rússlands þarf ekki að geta. Mustafa Kemal kemst til valda í Tyrklandi 1922, sama ár og Mússolíní á Ítalíu. Dollfuss lokar austuríska þinginu og tekur sér alræðisvald 1933.

Allt þetta einræði var gjarnan að vilja fólksins. Þegar til kastanna kemur hvarflar ekki að neinum að láta kokkinn og messaguttann stýra skipinu í gegnum ólgusjó en ekki skipstjóra. Í lýðræðisþreytunni á fyrri hluta 20. aldar þótti mörgum blasa við sú valnauð að einu valkostirnir við hið meingallaða fulltrúalýðræði/þingræði væri einræði: fasismi og kommúnismi. Aristóteles lýsti því enda sem svo í fornöld að lögmál stjórnmála væri að í kjölfar lýðræðis kæmi harðstjórn, eftir það höfðingjastjórn og þvínæst aftur lýðstjórn á ný. Það þarf ekki að vera lögmál. Margoft í sögunni hefur verði við lýði frjálslynd blanda af höfðingjastjórn og lýðstórn, lýðræði án stjórnmálaflokka og lýðræði án kosninga í núverandi mynd. Hugarfluginu eru engin takmörk sett þegar kemur að hugleiðingum um lýðræði.

En ég var víst að tala um Ísland og kófið þegar maður má ekki neitt, ekki einu sinni anda. Pláguþreytan er fyrirsjáanleg: Allt venst með tímanum. Dauðabeygurinn úr fyrstu bylgju er farinn. Ég trúi því ekki nema mátulega að sagan endurtaki sig en tímarnir hér eiga líka sitthvað sameiginlegt með fyrstu áratugum 20. aldar. Frábær íslenskur höfundur — ég ætla að leyfa mér að halda því fyrir sjálfan mig hver það var — lýsti því sem svo snemma á fjórða áratugnum að helsti vandi lýðræðisins væru kosningar. Það kannski hljómar varhugavert. En væri það ekki svolítið skrýtið ef vitað væri að Þórólfur sóttvarnalæknir hefði í hyggju að bjóða sig fram til kosninga? Að hann þyrfti að hafa í huga hversu vinsælar ákvarðanir hans væru? Kannski er ástæða vinsælda þríeykisins einmitt sú að þau eru ekki í framboði.

Við eigum að sýna samstöðu

Það er ekki alveg að ófyrirsynju að fólk fær leið á lýðræði og þykir kosningar ekki vera annað en hanaat þar sem hver flokkur keppist um að væna hina um óheilindi og svik en mæra eigið ágæti og allir lofa þeir sem mestu — múta kjósendum með peningum sem kjósendurnir eiga sjálfir. Hverjir ráða í stjórnmálaflokkum sem bjóða fram til kosninga? Oftast einn maður sem þiggur fjárstyrki af öðrum til flokksins. Almenningur ræður ekki hverjir eru í framboði. Fulltrúalýðræði er þá ekki annað en að velja foringjana sem hafi fólkið í taumi næstu árin og hafa ekki annað um að segja hverjir það séu en að geta strikað einhvern út af forvöldum lista. Hagur fjölmiðla er gjarnan að gera sem mest úr hanaatinu í þeirri von að það verði vinsælt. Eða hvað?

Annað sem samtíminn á sameiginlegt með fyrstu áratugum 20. aldar eru umræður um stjórnarskrá. Ég ætla ekki að rekja söguna. Feneyjarnefndin hefur í dag sitthvað að athuga við núverandi drög og álítur að gefa þurfi íslensku þjóðinni sannfærandi skýringar á öllum breytingum frá tillögum Stjórnlagaráðs 2011, enda voru þær bornar upp í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og samþykktar sem grundvöllur nýrrar stórnarskrár. Ég rek það ekki heldur. Mig langaði hins vegar að benda á ritúelskt gildi stjórnarskrár í lýðræðisríki. Þegar vinsæll konungur afhenti stjórnarskrá á sínum tíma var það ritúel, helgiathöfn. Þegar þjóðin samþykkti stjórnarskrá 2012 hafði það líka ritúelskt gildi, umboðið kom ekki frá konungi og guði heldur þjóðinni. Yfir því er ákveðin helgi.

Ef lýðræðisþreytan er slík að þjóðin getur ekki staðið saman og komið sér aftur í sömu spor og síðasta vor og farið eftir einföldum tilmælum sóttvarnalæknis er hún að brjóta á sinni eigin helgi. Það má minna á að forvígismenn lýðræðishugmynda höfðu ekki alltaf sömu hugmyndir um kosningar og kosningarétt. Þannig áleit John Stuart Mill ótækt að fólk sem ekki kynni að lesa og skrifa hefði kosningarétt. Fólk sem er svo grímulaust ófært um að setja sig í spor annarra að það getur ekki látið ógert að tefla lífi náungans í tvísýnu með því að hósta framan í hann er ekki tækt í mannlegu samfélagi.

Við eigum að sýna samstöðu. Við eigum að haldast í hendur. Kannski ekki í bókstaflegri merkingu en í ritúelskri merkingu.

Tengdar fréttir

Pistlar

Þröskuldur villimennskunnar

Pistlar

Brýn sýning um norræna normalíseringu hins kynjaða

Pistlar

Hvað er sjálfbærara en bóndi?

Pistlar

Um skammtaeðli forseta Íslands