Dagurinn gæti reynst örlagaríkur í dönskum stjórnmálum

18.10.2020 - 12:25
Denmark's Prime Minister Mette Frederiksen on her way to deliver her opening speech during the official opening of the Danish Parliament in Copenhagen, Denmark, Tuesday Oct. 6, 2020. (Mads Claus Rasmussen/Ritzau Scanpix via AP)
 Mynd: AP
Bæði borgarstjóri Kaupmannahafnar og þingflokkur Radikale Venstre bregðast síðar í dag við ásökunum um kynferðislega áreitni. Danskir miðlar segja að þetta gæti reynst örlagaríkur dagur í dönskum stjórnmálum.

Ásakanir um kynferðislega áreitni hafa skekið dönsk stjórnmál undanfarnar vikur, einkum miðjuflokkinn Radikale Venstre. Morten Ostergaard sagði af sem leiðtogi flokksins í síðustu viku eftir að hann gekkst við því að hafa áreitt samflokkskonu sína. Síðan hafa fleiri stigið fram og grunur um að flokksforystan hafi vitað af þessu máli og jafnvel fleirum en ekkert aðhafst.

Í hádeginu hófst þingflokksfundur Radikale Venstre, en það var nýr leiðtogi flokksins Sofie Carsten Nielsen sem boðaði til fundarins. Fátt er vitað um dagskrána en talið er að þar verði nær eingöngu rætt um kynferðislega áreitni innan flokksins og viðbrögð við þeim málum sem upp hafa komið. Átök í flokknum gætu haft mikil áhrif því hann ver, ásamt tveimur öðrum, ríkisstjórn Mette Frederiksen falli. Í haust hafa margar ásakanir um kynferðislega áreitni komið fram, en önnur Metoo bylgja ríður nú yfir Danmörku og konur í mörgum kimum samfélagsins sagt sína sögu.

Frank Jensen, borgarstjóri Kaupmannahafnar síðan 2010, hefur boðað til blaðamannafundar síðdegis í dag en þar er talið að hann ætli að bregðast við ásökunum gegn sér, en meint brot hans eða óviðeigandi framkoma, áttu sér stað bæði áður og eftir að hann tók við sem borgarstjóri. Í Jótlandspóstinum á föstudag var rætt við Mariu Gudme, sem nú situr í einu svæðisráða borgarinnar. Hún sagði frá því að borgarstjórinn hefði lagt hönd á læri og rennt undir kjólinn hennar á fundi með fleiri jafnaðarmönnum árið 2012, þegar hún var 23 ára. Talið er að Jensen ætli að bregðast við þessu og nýrri ásökunum frá 2017 á fundinum á eftir sem hefst klukkan hálfsjö, klukkan hálf fimm að íslenskum tíma. Á vef danska Jótlandspóstsins segir að danskur almenningur hafi ekki vitað af þessum ásökunum fyrr en nú, og þessi sunnudagur gæti reynst örlagaríkur í dönskum stjórnmálum.
 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi