
Ásakanir um brot á vopnahléssamningi ganga á víxl
Talskona armenska varnarmálaráðuneytisins sendi þá frá sér tilkynningu þar sem hún fullyrti að Aserar hefðu skotið sprengikúlum og flugskeytum á skotmörk í Nagorno-Karabakh. Að morgni sunnudags barst svo yfirlýsing frá varnarmálaráðuneyti Aserbaísjans þar sem armenski herinn er sakaður um að hafa „brotið gróflega“ gegn nýja samkomulaginu með stórskotahríð og eldflaugaárásum. Engar fregnir hafa þó borist af mannfalli í nótt, enn sem komið er.
Fögur en marklaus fyrirheit
Hörð átök ríkjanna um yfirráð í Nagorno-Karabakh hafa nú staðið í þrjár vikur. Hundruð hafa fallið í valinn, þar á meðal tugir óbreyttra borgara. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, ræddi við kollega sína í Armeníu og Aserbaísjan í gær og lagði ríka áherslu á að vopnahléð yrði virt að þessu sinni. Blekið hefur vart náð að þorna á fyrri vopnahléssamningum ríkjanna áður en sprengjunum tók að rigna á ný.
Engin breyting virðist hafa orðið þar á að þessu sinni, þrátt fyrir hátíðlegar yfirlýsingar utanríkisáðuneyta beggja ríkja í gær, þar sem því var heitið að standa við þetta nýjasta vopnahléssamkomulag og halda samningaviðræðum áfram.