Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Nítján sektuð fyrir brot á sóttvarnarlögum

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
29 einstaklingar og fyrirtæki hafa farið í ákæruferli hjá lögreglu fyrir brot á sóttvarnarlögum síðan kórónuveirufaraldurinn hófst hér á landi. Þar af hafa nítján verið sektuð.

Í lok mars gaf ríkssaksóknari út fyrirmæli um að sektað yrði fyrir brot á sóttvarnarlögum vegna COVID-19 og voru þau send öllum lögreglustjórum. Sóttvarnarlög og tilmæli hafa verið misströng síðan faraldurinn hófst og fjárhæð sektanna fer eftir alvarleika hvers brots, allt frá fimmtíu þúsund krónum til fimmhundruð þúsund króna. 

Í lok júlí voru teknar upp reglur um notkun andlitsgríma og í þessum mánuði var grímuskylda sett á þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra reglu, fyrst innan höfuðborgarsvæðisins en það mun eiga við um landið allt eftir helgina. Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra hafa verið gefnar út sektir vegna brota á grímuskyldu. 

Samkvæmt bráðabirgðatölum frá ríkislögreglustjóra hefur fyrirtæki verið sektað í einu máli af þeim 29 sem farið hafa í ákæru- eða sektarmeðferð hjá lögreglu. Hin málin snúa öll að einstaklingum. Ekki er rannsóknum allra mála þó lokið og snúa opin mál bæði að einstaklingum og fyrirtækjum. Þau brot á sóttvarnarlögum sem lögreglan hefur til meðferðar hafa gerst bæði innan og utan höfuðborgarsvæðisins.