Heima valin besta viðskiptahugmyndin

17.10.2020 - 18:27
Mynd: Axel Fannar Sveinsson / Aðsend mynd
Viðskiptahugmyndin Heima varð hlutskörpust í frumkvöðlakeppninni Gullegginu í ár. Heima er smáforrit sem skiptir húsverkum og huglægu byrðinni af heimilishaldi jafnt á milli sambýlinga. Verðlaunahafarnir Sigurlaug Jóhannsdóttir, Birgitta Rún Sveinbjörnsdóttir og Alma Dóra Ríkharðsdóttir skipta með sér verðlaunafénu, einni milljón króna frá Landsbankanum.

Rætt var við þær Sigurlaugu og Ölmu í Síðdegisútvarpinu fyrr í mánuðinum og má heyra nánari skýringu þeirra á forritinu í spilaranum hér fyrir ofan. 

Í öðru sæti var Hemp Pack með hugmynd um að nýta iðnaðarhamp og örverur til að framleiða lífplast sem brotnar alveg niður í náttúrunni og í þriðja sæti ar Frosti sem framleiðir íslenskar skyrflögur, laktósafríar með vanillubragði og blárri spírulínu. 

Icelandic Startups standa fyrir frumkvöðlakeppninni og segja hana tilvalinn vettvang fyrir frumkvöðla og aðra hugmyndasmiði. Þátttaka í Gullegginu veitir frumkvöðlum einnig fjölmörg tækifæri til að efla tengslanetið og koma hugmyndum sínum á framfæri.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi