Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Er orðinn að öllu því sem hann þoldi ekki

Mynd: Gunnar Hansson / RÚV

Er orðinn að öllu því sem hann þoldi ekki

17.10.2020 - 09:05

Höfundar

Guðmundur Ingi Þorvaldsson fer með eitt aðalhlutverkið í nýjum tölvuleik í seríunni Assasin‘s Creed sem er ein sú vinsælasta í heimi. Hann er afkvæmi innansveitarrómantíkur í Reykholtsdal í Borgarfirði og gallharður sveitamaður. Guðmundur hefur leikið víða innan- sem utanlands og rak Tjarnarbíó um skeið, auk þess að vera liðtækur tónlistarmaður.

„Ég er svo mikill bóndasonur að oft þegar ég er að segja vinum mínum úr bænum frá æsku minni líður þeim stundum eins og ég hafi fæðst á 19. öld,“ segir Guðmundur sem var föstudagsgestur Mannlega þáttarins. „Þegar ég er að alast upp voru langömmur- og afar inni á heimilinu, fólk sem hafði upplifað spænsku veikina. Ég næ í skottið á þessari menningu þar sem eru alltaf 20 manns í mat, alltaf allt fullt af fólki að raka og gera að skepnunum.“ Guðmundi gekk vel í íþróttum sem unglingur og var snemma farinn að láta að sér kveða í félagsstarfi. „Eins og ég átti kyn til, föðurfjölskyldan mín var mikið í áhugaleikhúsi, ballhljómsveitum og öðru. Það var hluti af því að tilheyra samfélagi að sinna félagsstarfi.“

Guðmundur fór í Menntaskólann á Akureyri því hann langaði í heimavistarskóla en þar stofnaði hann hljómsveitina Tvö dónaleg haust ásamt vinum sínum. Hann hugsar með hlýhug til bæjarins og þessa tíma. „Ótrúlega góður tími, ég fékk allt sem ég vildi, heimavist, kynnast fólki vel, verða sjálfstæður.“ Guðmundur smitaðist snemma af sviðslistagyðjunni en að hans sögn var Ungmennafélag Reykdæla eitt af virtustu áhugaleikfélögum á landinu. „Settu upp mjög metnaðarfullar sýningar og fengu atvinnuleikara úr bænum til að leikstýra.“ Hann steig þó sjálfur ekki á svið með Ungmennafélagi Reykdæla fyrr en eftir að hann útskrifaðist sem leikari. „Þegar Flosi Ólafsson flutti upp í Reykholtsdal og bað mig að vera með í sýningu. Það var í fyrsta sinn sem ég fékk að leika í Logalandi og þá lék ég Galdra-Loft.“

„Hérna er fólkið mitt“

Eftir Menntaskólann á Akureyri lá leið Guðmundar suður til Reykjavíkur. „Ég ætlaði að verða prestur og skráði mig í guðfræðinám. Var líka eitthvað að gæla við lækninn. Er að vasast í hljómsveitum og vann fyrsta veturinn minn sem gæðaeftirlitsmaður hjá Sól.“ Hljómsveitabröltið gekk hins vegar ekki sem best og eitt sinni stingur bassaleikar Tveggja dónalegra hausta upp á því að hann sæki um í leiklistarskólanum. „Ég komst inn og þá var ég kominn heim, þá hugsaði ég, „hérna er fólkið mitt,“, skapandi og úti um allt.“ Hljómsveitin Tvö dónaleg haust er hins vegar enn þá starfandi og gáfu nýverið út plötuna Miðaldra. „Það eru ákveðin þáttaskil þegar þú ferð að hugsa að það séu 23 ár í sjötugt. Fokk. Hvað er ég búinn að vera gera og hvað ætla ég að gera?“

Guðmundur segir að þegar hann var ungur maður hafi fátt farið meira í taugarnar á honum en miðaldra menn sem voru sáttir við lífið og tilveruna. „Svona 12 spora-menn sem fannst allt frábært og fullir af þakklæti og æðruleysi. Ég skildi þetta ekki, mér fannst þetta bara aumingjar sem væru búnir að missa áhugann á lífinu, og skildu ekki hvað metnaður var. En núna er ég orðinn einn af þeim,“ segir Guðmundur kankvís. Hann hefur komið víða við á leiklistarferlinum; rak til að mynda Tjarnarbíó í nokkur ár, lék í Iron Maiden-myndbandi sem ungur maður og sást nú síðast á sjónvarpsskjám landsmanna í Pabbahelgum.

En nýlega lék hann í stærsta verkefni sínu hingað til, víkingaútgáfu tölvuleiksins Assassin‘s Creed, en sú sería er meðal vinsælustu tölvuleikja heims um þessar mundir. „Og er búinn að halda kjafti um það í eitt og hálft ár,“ segir Guðmundur sem nú loksins má segja frá en leikurinn Assassin‘s Creed, Valhalla kemur út 10. nóvember. „Þetta er svona ævintýraleikur. Þú ert ekki að spila með vinum þínum heldur ertu einn að leysa verkefni inni í söguheiminum. Assasin‘s Creed hafa alltaf verið mjög nákvæmir í sagnfræði heimanna sem þeir byggja á.“ Persónan sem Guðmundur leikur er ekki sú sem fólk spilar, heldur sá sem spilarinn þarf að þjóna, víkingahöfðinginn Sigurd.

Eins og að leika á sviði

Guðmundur segir nokkuð sérstakt að leika í tölvuleik, það sé notast við svokallað Motion Capture-aðferð þar sem hreyfiskynjarar og tölva fanga allar hreyfingar. „Þú ferð í þröngan svartan búning með skærum ljósnæmum punktum á. Svo ertu með hjálm með myndavélum í andlitinu, og ert teiknaður beint inn í tölvuna.“ Guðmundur segir að þetta hafi að sumu leyti verið eins og að leika á sviði. „Af því þú ert alltaf með kameru í andlitinu, og ert aldrei off, því sá sem er að spila á alltaf að geta snúið sér hvert sem er og þú verður að vera með. Þú ert alltaf í mynd. Og svo af því þetta er tölvuleikur vilja þeir fá dálítið leikhúslegan leik, þetta er ekki natúralískur og minimalískur kvikmyndaleikur heldur vilja þeir stærð.“

Að sögn Guðmundar er mikil spenna fyrir leiknum en fyrsta stiklan úr honum fékk 100 milljón áhorf á fyrsta sólarhringnum. Leikurinn kemur út í nýjustu útgáfunni af Playstation-tölvunni. Yfirmenn hans sögðu kokhraustir „við vitum að við seljum 20-40 milljón eintök fyrir jól. Ekki hafa áhyggjur, þetta verður stórt.“ Fyrir COVID-faraldurinn hefði svo Guðmundur eygt mikla tekjumöguleika í því að ferðast á milli nördahátíða, svokallaðra ComCons. „En það er ekkert að frétta þar núna,“ segir Guðmundur að lokum.

Gunnar Hansson og Guðrún Gunnarsdóttir ræddu við Guðmund Inga Þorvaldsson í Mannlega þættinum.

Tengdar fréttir

Leiklist

„Þig grunar ekki hver, en þetta er maðurinn þinn“

Menningarefni

Gleymir ekki svipnum á mömmu að dansa á þingtröppunum

Leiklist

Hélt hún yrði alltaf ein eftir skilnaðinn