Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Vinnumálastofnun opnar skrifstofu á Húsavík

15.10.2020 - 14:57
Mynd með færslu
 Mynd: Framsýn
Vinnumálastofnun hefur ákveðið að opna skrifstofu á Húsavík. Vaxandi atvinnuleysi er í Norðurþingi og heimamenn þar lagt mikla áhersla á að fá starfsstöð Vinnumálastofnunar þangað.

Skrifstofa Vinnumálastofnunar verður opnuð á morgun, 16. október, og verður í húsi stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslu að Garðarsbraut 26 á Húsavík. Tímabundið, vegna COVID-19, verður eingöngu um rafræna þjónustu að ræða.

Um 150 án atvinnu í Norðurþingi

Allt að 9 prósenta atvinnuleysi er spáð í Norðurþingi í vetur en þar eru nú um 150 án atvinnu. Kristán Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, og Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður stéttarfélagsins Framsýnar, hafa báðir kallað eftir því að Vinnumálastofnun opni á ný starfsstöð sem starfrækt var á Húsavík til 2014. Öflug þjónusta við atvinnuleitendur og náið samtal sé algert lykilatriði í svona ástandi.

Léttir álaginu af starfsfólki Framsýnar

Framsýn hefur sinnt vinnumiðlun síðustu vikur og Aðalsteinn Árni segir að þannig hafi tekist að miðla ákveðnum hópi í vinnu. Þetta sé hinsvegar ekki hlutverk stéttarfélagsins. Hann fagnar því að Vinnumálastofnun hafi nú ákveðið að opna skrifstofu á Húsavík. Ráðinn hafi verið starfsmaður í fullt starf sem verði með aðstöðu í húsi Framsýnar. Þjónustan verður þó rafræn í fyrstu, eins og áður segir. „Þetta léttir mjög álaginu af starfsfólki Framsýnar því það er mikil vinna í kringum þessa þjónustu,“ segir Aðalsteinn.