
Sóttvarnarreglur hertar í Póllandi
Mateusz Morawiecki forsætisráðherra skoraði í dag á landsmenn að halda sig heima, ef þeir ættu þess kost. Einnig bað hann fólk að vinna heima ef það sæi sér fært.
Kórónuveiran breiðist hratt út í Póllandi um þessar mundir, líkt og víða annars staðar. Alls reyndust 8.099 sýni jákvæð síðastliðinn sólarhring, hið mesta til þessa. Þau eru þar með orðin tæplega 150 þúsund frá hið fyrsta greindist jákvætt fjórða mars.
Morawiecki sagði í dag að loknum fundi með neyðarteymi ríkisstjórnarinnar í Varsjá að allt landið hefði verið skilgreint gult hættusvæði að undanförnu, en frá laugardegi yrðu höfuðborgin og nokkrar borgir til viðbótar settar á rautt. Öllum miðskólum í landinu verður lokað tímabundið og nemendum gert að stunda námið í fjarkennslu. Veitingahúsum á að loka klukkan níu á kvöldin, brúðkaupsveislur verða bannaðar, fjöldatakmarkanir verða við trúarathafnir og hert á reglum um fjölda fólks í einu inni í verslunum og í almenningsfarartækjumsvo nokkuð sé nefnt.
Forsætisráðherrann sagði að aðgerðirnar miðuðu að því að bjarga mannslífum, ekki síst meðal eldri borgara. Ástandið færi sífellt versnandi í löndum á meginlandi Evrópu. Pólverjar væru þar ekki undanskildir.