Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Hvarfakútar látnir hverfa undan bifreiðum í Reykjanesbæ

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Viðar Hákon Gíslason
Hvarfakútum hefur undanfarið verið stolið undan bílaleigubílum og flökum á bílapartasölum í Reykjanesbæ. Tjónið er tilfinnanlegt.

Hvarfakútum er ætlað að draga úr mengun úr bifreiðum og innihalda efnahvata í þeim tilgangi. Það eru eðalmálmarnir palladíum, silfur, hvítagull, platína eða rodium. Kútarnir eru því mjög verðmætir.

Hjörleifur Björnsson sem rekur bílaleiguna Icerrental 4x4 á Ásbrú segir starfsfólk sitt vera að kanna hve margir bílar hafi orðið þjófunum að bráð. Bílaleigan eigi um 500 bíla en nú þegar sé ljóst að hvarfakútar hafa verið teknir undan minnst 29.

Allt pústkerfi bílanna eyðileggist við að hvarfakúturinn sé fjarlægður en engar tryggingar nái yfir tjón af þessu tagi. Þjófnaður af þessu tagi hafi verið faraldur á Bretlandseyjum undanfarið.

Í fyrra bárust tilkynningar til lögreglu þar í landi um að hvarfakútum hafi verið stolið undan 13 þúsund bifreiðum í samanburði við tvö þúsund árið áður. Vísbendingar séu þó um að tilfellin séu mun fleiri.

Bílaleigubílar Hjörleifs standa á vöktuðu svæði og verið sé með aðstoð myndavélabúnaðar að greina tímarammann. Hjörleifur telur líklegast að þjófarnir reyni að koma kútunum sjálfum eða góðmálmunum úr þeim í verð utan landsteinanna.

Skúli Rúnar Reynisson sem rekur bílapartasöluna Partout á Ásbrú tekur undir það. Skúli Rúnar segir að hvarfakútar hafi horfið undan tíu til tólf bílflökum á svæði partasölunnar þannig að tjón hans sé mun minna en Hjörleifs og annarra þeirra sem reka bílaleigurnar á svæðinu.

Hann ætli að skoða upptökur úr öryggismyndavélum þótt það sé tafsamt verk. Skúli kveður augljóst að þeir sem þarna eru á ferð viti nákvæmlega hvað þeir eru að gera. Þeir hafi þekkingu á því hvaða kútar innihalda dýrmætustu efnin.

Fréttastofu hefur borist til eyrna að fleiri hafi lent í þjófnaði af þessu tagi en það er enn óstaðfest. Lögreglan á Suðurnesjum segir málið sem tengist bílaleigunni í rannsókn sem þjófnaður en enn sem komið er sé fátt um vísbendingar.