Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Heilinn hættir ekki að virka á tilteknum afmælisdegi“

Frá upplýsingafundi Almannavarna 12. ágúst 2020.  Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara.
 Mynd: Lögreglan á höfuðborgarsvæ? - RÚV
Formaður Landssamband eldri borgara segir að aldursfordómar séu ríkir hér á landi og að það sé mannréttindabrot að fólk sé látið hætta störfum 70 ára. Það sé gróf mismunun vegna kennitölu.

Fréttastofa greindi frá því í morgun að Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Reykjavíkurborg í gær af kröfu fyrrverandi kennara í Breiðholtsskóla, sem gert var að hætta þar sem hún var orðin sjötug. Konan taldi ósanngjarnt að þurfa að hætta þar sem hún var með fullt starfsþrek auk þess sem skólinn var í vandræðum með að manna stöður.

Í niðurstöðu dómsins kom fram að ákvæði í kjarasamningum grunnskólakennara, um starfslok við sjötugt, eigi stoð í lögum. Í dómnum segir engu að síður að eftir standi að ákvarða hvort ákvæðið sjálft gangi lengra en nauðsynlegt er. Til dæmis hafi Alþingi ekki tekið afstöðu til slíkra starfslokareglna á sínum tíma.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, segir að túlkun félagsins sé sú að dómari taki undir það að ákvæðið gangi í raun of langt, þó ekki hafi verið gengið að kröfum konunnar. Hún segir aldursfordóma mikla í íslensku samfélagi.

Ætti að vera valkostur að vinna lengur

„Heilinn hættir ekkert að virka á tilteknum afmælisdegi. Í dag er fólk um 70 ára aldur í svipaðri stöðu og fólk um 50 ára aldur fyrir áratugum. Lífslengdin er svo miklu lengri. Þetta ætti að vera valkostur að vinna lengur ef heilsa og vilji er til þess,“ segir Þórunn.

Hún bendir á að mannréttindi fólks til að starfa að vild eru orðin að veruleika víða í Evrópu og mál svipað þessu hafi til dæmis unnist í Bretlandi. Þá skjóti það skökku við að í þeim tilfellum þar sem fólk fær undanþágu til að vinna lengur, þá þýði það að borgað sé tímakaup og almenn réttindi detta út samhliða því.

Landssamband eldri borgari muni áfram berjast fyrir rétti og frelsi fólks til að vinna að vild, og að allar skerðingar á lífeyri vegna vinnu verði einnig alfarið afnumdar.