Bæjarráð tekur vel í laxeldi í stað álframleiðslu

15.10.2020 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór GUðmundsson - RÚV
Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ segir bæjaryfirvöld taka jákvætt í hugmyndir Samherja um laxeldi á svæði Norðuráls í Helguvík, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Samherji fiskeldi og Norðurál hafa undirritað viljayfirlýsingu í tengslum við að Samherji kaup eignir Norðuráls í Helguvík, en útséð er með  að þar rísi álver. Breytingar sem þarf að gera á deiliskipulagi og fleiri atriðum heyra undir bæði Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ. Bæjarráð Reykjanesbæjar rædd málið á fundi sínum í morgun.

„Okkar fyrstu viðbrögð eru jákvæð, það er að segja, við fögnum og tökum vel í allar hugmyndir um atvinnuuppbyggingu í Helguvík og náttúrlega víðar því við þurfum að fjölga störfum á Suðurnesjum og í Reykjanesbæ og ekki síst að auka fjölbreytni starfa hér á þessu svæði, þanngi að við tökum þessu bara mjög vel, segir Kjartan Már Kjartansson bæjastjóri.

Bæjarráð bókaði að hugmyndir um atvinnuuppbyggingu þurftu að uppfylla að minnsta kosti tvö af eftirfarandi atriðum. Að vel launuð störf skapist og að þau séu ekki mengandi. Þá skapi þau tekjur af skipaumferð um Helguvíkurhöfn. Samherji vinni nú að fýsileikakönnun og fól bæjarráð bæjarstjóra að gera slíkt hið sama með tilliti til fyrrgreindra atriða. Ræða þurfi við Kadeco sem landeiganda fyrir hönd ríkisins og Suðurnesjabæ sem fari með skipulagsvaldið. Einnig þurfi að kanna gildi ýmissa samninga sem gerðir voru í tengslum við fyrirhugað álver. Einnig telur bæjarráð mikilvægt að ná samkomulagi við Norðurál um uppgjör vegna kostnaðar sem lagt var í vegna Helguvíkurhafnar og álverssvæðisins.

„Við tökum mjög jákvætt í þetta og þetta þarf allt að vera skýrt og á hreinu og það er mikill velvilji fyrir öllum störfum og aukinni fjölbreytni í störfum, bæði í Helguvík og annars staðar hér.“
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi