Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Biden mælist með 17 prósentustiga forskot á Trump

Mynd með færslu
 Mynd:
Skoðanakönnun sem breska blaðið Guardian og rannsóknarfyrirtækið Opinium gerðu meðal bandarískra kjósenda á dögunum bendir til þess að Joe Biden hafi stóraukið forskot sitt á Donald Trump á síðustu dögum og vikum. Samkvæmt henni munar nú allt að 17 prósentustigum á fylgi forsetaframbjóðendanna. Um 57 prósent þeirra sem afstöðu tóku sögðust ætla að kjósa Biden, en 40 prósent ætla að merkja við Trump á kjörseðlinum.

Skoðanakönnun á vegum bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CNN, sem gerð var fyrr í þessum mánuði, sýndi svipaðan mun á frambjóðendunum; samkvæmt henni ætluðu líka 57 prósent líklegra kjósenda að kjósa Biden en 41 prósent sögðust ætla að kjósa núverandi forseta til áframhaldandi setu í Hvíta húsinu.

Svipað forskot og Reagan hafði á Mondale - og Dukakis á Bush 

Í frétt The Guardian er rifjað upp að forskot Bidens nú, þegar þrjár vikur eru til kosninga, jafnist næstum á við yfirburði Ronalds Reagans þegar hann var endurkjörinn árið 1984.

Fjórum árum síðar hafi frambjóðandi Demókrata, Michael Dukakis, hins vegar líka mælst með 17 prósenta forskot á mótframbjóðandann George Bush eldri, þegar mest lét. Það var þó mun fyrr í kosningabaráttunni, eða í júlí, og Bush hafði því mun meiri tíma til að vinna upp forskot keppinautar síns en Trump hefur nú.

Í frétt Guardian kemur fram að Biden hafi aukið fylgi sitt meðal óákveðinna kjósenda um fimm prósentustig frá því í september.