Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áætlar að 1,5 milljarða virði af skólamat sé hent

14.10.2020 - 16:34
Mynd: Anton Brink / Ruv.is
„Markmiðið er að rannsaka hvað börn eru að borða og hvaðan maturinn þeirra kemur og hversu mikil matarsóun er í skólamötuneytum landsins,“ segir Herborg Svana Hjelm, forsvarsmaður Máltíðar, sem er í ein af tíu stigahæstu hugmyndunum sem bárust í frumkvöðlakeppnina Gulleggsins í ár. Alls bárust um 400 hugmyndir.

Út frá tölum Hagstofunnar um fjölda grunn- og leikskólabarna áætlar Máltíð að leikskólabörn landsins fái á ári hverju samtals tæpar þrettán milljónir matarskammta og grunnskólabörn 8,3 milljónir matarskammta í hádegismat eða samtals 21 milljón matarskammta á ári. Gera megi ráð fyrir að um sex milljónir skammtanna endi í ruslinu.

„Verkefnið tekur á fjórum mikilvægum þáttum, það er lýðheilsu barna, umhverfisþáttum, matarsóun og greina hversu mikið hráefni í skólunum er íslenskt. Þetta er svona stóra myndin af vekefninu,“ segir Herborg. 

Skoðað hvað endar í ruslinu

Verkefnið sé stórt því það skipti miklu máli að vita hvað börnin borða og hvort þau velji hollari kost frekar og komast að því hversu mikið af því sem eldað er fyrir börn endar í ruslinu og hvernig sé þá hægt að nýta peninga betur.

„Miðað við það sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur gefið út og hefur rannsakað, þá er um 30 prósenta matarsóun á öllu sem framleitt er á öllum framleiðslustigum. Þá erum við að gera ráð fyrir að það séu 6,3 milljónir matarskammta sem fer í ruslið, sem kostar samfélagið miðað við meðalverð á matarskammti yfir daginn, um einn og hálfan milljarð árlega fyrir skólaárið. Hvernig er hægt að draga úr matarsóuninni? Við leggjum upp með að skilgreina sex vikur á matseðli þannig að við greinum á sex vikna tímabili hvern dag fyrir sig þannig að við sjáum hvað börnunum finnst gott og hvað ekki gott, hvað fer í ruslið og hvað ekki. Þannig að næst þegar við förum í næstu sex vikur þá tökum við tillit til þess sem þau borðuðu og h0öldum því náttúrlega inni en það sem fer í ruslið, við annaðhvort tökum það af matseðli og momomum með aðra vöru en ef rétturinn er ekki vinsæll þá er skipt um matseðil yfir þann dag. Þetta snýst aðallega um það að hanna matseðil sem börnin vilja og henda ekki í ruslið því þetta kostar jafn mikið í maga og í ruslinu, maturinn.“

Tólf vikna ferli

Herborg segir að nemendafélög verði virkjuð til þátttöku í verkefninu. „Við leggjum upp með að við komum inn og þetta sé tólf vikna ferli þar sem við förum í gegnum fyrsta fasann með matseðilinn, svo kemur annar fasi þar sem við erum að aðlaga að hverjum skóla fyrir sig og í leiðinni þá erum við að fræða börnin, kennarana og foreldrafélögin. Stóri þátturinn í þessu er að fá nemendafélögin í skólanum til að vinna með okkur og segja okkur hvað börnin vilja og hvernig þau sjái fyrir sér hádegismatinn og fræða þau um hvað það er mikilvægt að borða hollan mat.“

Herborg segir að nú sé í gangi vinna að hönnun á gagnagrunni um matarsóun. Við greiningu á matarsóun í mötuneytum sé horft til þess sem til sé í kælum, frystum og á þurrvörulager og haldið utan um það sér. „Og svo þegar er verið að elda matinn þá höldum við utan um það líka, bæði það sem er nýtanlegt og ónýtanlegt. Við skiptum því sem er afgangs á diskunum í tvo flokka; nýtanlegt og ónýtanlegt. Kjúklingabein er til dæmis ónýtanlegt, það er ekki raunveruleg matarsóun en kartöflurnar eru matarsóun, þannig að við flokkum það. Og svo ef það er verið að setja á hlaðborð þá gerum við það sama, við flokkum það í tvennt í nýtanlegt og ónýtanlegt þannig að út frá þessu er hægt að hafa yfirsýn yfir hvern flokk fyrir sig.“

Herborg segir að við næstu innkaup sé hægt að taka tillit til matarsóunar í hverjum flokki fyrir sig og nýta fjármagnið betur.

Þetta er þá eitthvað sem sveitarfélögin geta nýtt sér í sínum fjárhagsáætlunum? „Þetta er hugsað fyri rsveitarfélögin og svo vonast ég til að þetta leggist vel í landann og að fyrirtæki hafi líka áhuga á svona yfirsýn og jafnvel ríkið líka því að þetta er svo rosalega stór þáttur í okkar lífi, að borða mat og að matur sé góður og að við höfum góða upplifun að matnum, það er líka hluti af þessu. Ef þú ert ánægður með matinn þá er minni matarsóun,“ bendir hún á. 

Herborg vekur athygli á því að samkvæmt Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni WHO hafi offita á Íslandi þrefaldast frá árinu 1975. „Þannig að þetta er líka þjóðhagslega hagkvæmt fyrir samfélagið að vera með góðan næringarríkan mat og hugsa vel um börnin okkar, því það er uppistaðan í þessu öllu líka.“

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV