Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Þingmenn allra flokka vilja draga úr öldrunarfordómum

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia
Það kann ekki að keyra, fyllir dýr pláss, íþyngir félagsþjónustu, kostar mikið og skilur ekki nútímann. Þetta eru dæmi um þá fordóma sem mæta eldra fólki, samkvæmt þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun gegn öldrunarfordómum sem þingmenn úr öllum þeim átta flokkum sem sitja á þingi hafa lagt fram.

Þar er lagt til að Alþingi skipi starfshóp sem geri aðgerðaáætlun gegn öldrunarfordómum, hún verði gerð í nánu samstarfi við hagsmunaaðila og starfshópurinn skili tillögum til ráðherra eigi síðar en haustið 2021. 

Í greinargerð þingsályktunartillögunnar segir að á undanförnum árum hafi umræða um aldursfordóma aukist og þeirri skoðun vaxið fylgi að þeir séu raunverulegt samfélagsmein sem skaði hagsmuni eldra fólks og liti umræðu um það. Þessir fordómar eigi sér margar birtingarmyndir, en minna fari fyrir umræðu um þann félagsauð sem sem eldra fólk býr yfir og um verðmæti þekkingar þess og reynslu. 

„Í fjölmiðlaumræðu er mest áhersla lögð á eldra fólk sem yfirvofandi vandamál og þiggjendur þjónustu, og umræðan í samfélaginu gengur út á að leysa vandamál eldra fólks. Slík umræða og fordómar geta leitt til slíks kvíða meðal eldra fólks að það missi kjarkinn til að krefjast réttar síns og viðeigandi þjónustu. Þó er það vel þekkt staðreynd að fólk nýtir sér heilbrigðisþjónustu að jafnaði mest síðustu þrjá mánuði ævinnar,“ segir í ályktuninni. 

Lagðar eru til þrenns konar aðgerðir: Að lagaumhverfi verði yfirfarið og metið hvort lög mismuna aldurshópum. Að metið verði hvort tilefni er til að fella brott aldurstengdar viðmiðanir í lögum þar sem það á við, til dæmis starfsréttindi. Að metið verði hvort frekar skuli miðað við hæfni í lögum eða önnur málefnalegri viðmið en aldur verði lögð til grundvallar.