Allt starfslið karlalandsliðsins í sóttkví vegna smits

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Allt starfslið karlalandsliðsins í sóttkví vegna smits

13.10.2020 - 14:29
Allt starfslið íslenska karlalandsliðsins í fótbolta er komið í sóttkví. Erik Hamrén landsliðsþjálfari og Freyr Alexanderson aðstoðarlandsliðsþjálfari þar á meðal.

Smitrakningateymi Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra hefur tilkynnt að allt starfslið A landsliðs karla fari nú þegar í sóttkví vegna COVID-19 smits starfsmanns. 

Í tilkynningu KSÍ segir jafnframt: Eins og staðan er núna bendir ekkert til smits í hópi leikmanna og ekkert sem bendir til þess að leikurinn við Belgíu geti ekki farið fram, segir jafnframt.

Ísland mætir Belgíu í Þjóðadeildinni annað kvöld klukkan 18:45 og er leikurinn enn á áætlun. Leikmenn liðsins voru skimaðir í gær og greindist þá enginn með COVID-19. Miðað við þessar nýju upplýsingar verða leikmenn þó líklega skimaðir aftur. Ljóst er að Erik Hamrén og Freyr Alexandersson munu ekki stýra liðinu af hliðarlínunni.

Uppfært: Þorgrímur Þráinsson, sem er í starfsliði liðsins, er sá starfsmaður sem greindist með smit. Hann staðfestir það í samtali við Vísi. Ekki er útilokað að um gamalt smit sé að ræða en Þorgrímur fær út úr mótefnamælingu í kvöld. Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, sagði í samtali við RÚV fyrr í dag að ekki sé talið að hann hafi verið í návígi við leikmenn.

Eric og Freyr fá að vera á Laugardalsvelli

Uppfært 20:30: Erik Hamrén, landsliðsþjálfari, og Freyr Alexandersson, aðstoðalandsliðsþjálfari, hafa fengið leyfi til að vera á Laugardalsvelli annað kvöld en þó ekki á hliðarlínunni. „ „Ég og Erik fengum leyfi fyrir því að vera uppi í glerbúri á Laugardalsvelli og þaðan verðum við í sambandi við bekkinn okkar í gegnum fjarskiptabúnað. “ sagði Freyr í samtali við RÚV í kvöld. 

Þannig koma þeir skilaboðum til staðgengla sinna á hliðarlínunni en Freyr segist ekki geta upplýst um hverjir það verða. „Það verða góðir menn sem þekkja okkur og við þekkjum vel sem vinna með okkur að framkvæmd leiksins."

Leikmenn landsliðsins þurfa margir hverjir á aðhlynningu sjúkraþjálfara að halda og er búið að útvega slíka í stað þeirra sem þurftu að fara í sóttkví. Sjúkraþjálfararnir bíða nú niðurstöðu smitprófs og er vonast til þess að þeir komist til liðsins fyrir miðnætti.

Uppfært 21:30:

Þjálfarateymið tilkynnt

Í þjálfarateyminu gegn Belgum verða Arnar Þór Viðarsson þjálfari U21 landsliðs karla og Davíð Snorri Jónasson þjálfari U17 landsliðs karla, sem og Þórður Þórðarson þjálfari U19 landsliðs kvenna, sem verður markmannsþjálfari. Aðrir starfsmenn liðsins koma úr röðum A landsliðs kvenna og yngri landsliða karla og kvenna.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Leikurinn gegn Belgíu í hættu vegna smits?