Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Þetta reynir gríðarlega á fólk“

12.10.2020 - 08:23
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Landspítalinn á ekki annarra kosta völ en að fresta aðgerðum og setja COVID-sjúklinga í forgang ásamt bráðatilfellum að sögn Sigríðar Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar á spítalanum. 26 lágu inni vegna COVID um miðjan dag í gær og Sigríður segist gera ráð fyrir að sú tala hafi enn hækkað, þótt hún hafi ekki séð nýjar tölur þar um.

Hún segir áhyggjuefni hversu mikið reyni á heilbrigðisstarfsfólk í faraldrinum, sérstaklega núna þegar enn erfiðar gengur að manna stöður en í vor og færri eru skráðir í bakvarðasveit. „Þetta reynir gríðarlega á fólk,“ segir hún – sérstaklega til lengri tíma litið – og því ríði á að halda faraldrinum í skefjum. Mestu eftirköstin fyrir heilbrigðisstarfsfólk komi hins vegar mögulega ekki fram fyrr en síðar, þegar það mesta er gengið yfir.

Búa sig undir fjölda innlagna

Fram hefur komið að tugir gætu þurft að leggjast inn vegna COVID á næstu vikum og spítalinn býr sig nú undir það.

„Við erum náttúrulega að leita allra leiða til þess og það sem er kannski aðaláskorunin er að hafa nægilegt starfsfólk til að sinna þessum sjúklingahóp. Við erum ágætlega búin af lyfjum og tækjum og öðru sem til þarf,“ segir Sigríður.

„Sérstaklega hefur verið skortur á hjúkrunarfræðingum og það þýðir bara einfaldlega að það þarf önnur þjónusta að bíða sem mögulega getur gert það, sem er náttúrulega ekki æskilegt en við höfum bara þessi úrræði í raun og veru.“

Sigríður segir jafnframt að það mundi muna talsverðu um það fyrir spítalann ef hægt væri að útskrifa þaðan 100 manns og koma þeim í staðinn fyrir í stórhýsi við Urðarhvarf, eins og greint var frá í gær að hugmyndir væru um.