Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikil aukning í netverslun með matvæli

12.10.2020 - 19:15
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Netverslun með matvæli hefur margfaldast frá því sóttvarnaaðgerðir voru hertar á ný og eiga verslanir fullt í fangi með að mæta aukinni eftirspurn.

Ásta Sigríður Fjeldsted framkvæmdastjóri Krónunnar segir að algjör sprenging hafi orðið í eftirspurn á síðustu vikum.

„Við finnum fyrir gríðarlega aukinni eftirspurn í ljósi þessa nýja faraldurs. Hún hefur bara aukist á síðastliðnum mánuðum og hefur í raun orðið algjör sprenging á síðustu tveimur viku,“ segir Ásta.

Guðmundur Magnason framkvæmdastjóri Heimkaupa tekur í sama streng en þar hefur eftirspurn fjórfaldast á síðustu vikum og fyrirtækið þurft að bæta við sig starfsfólki.

„Það er mikið að gera hjá okkur núna. Við sendum venjulega samdægurs til viðskiptavina sem panta hjá okkur. Núna er það hins vegar þannig að ef þú pantar í dag þá færðu ekki fyrr en á morgun. Þannig að við önnum ekki eftirspurn eins og er,“ segir Guðmundur.

Guðmundur segir að aukningin nú sé svipuð eins og þegar fyrsta bylgja faraldursins gekk yfir landið í vor.

„En það er ómögulegt að segja hvað við myndum selja ef við værum að anna þessu öllu. En ég myndi segja að þetta væri svona svipað núna,“ segir Guðmundur. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV