Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Mikið líf á fasteignamarkaði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kári Gylfason
Mikið líf er á fasteignamarkaði og meðalsölutími er stuttur. Dýrari eignir seljast hraðar en áður og um 30% færri íbúðir eru til sölu nú, en í byrjun sumarsins. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri mánaðaskýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar fyrir október.

Þar segir að mikil fækkun hafi orðið í fjölda íbúða sem verið er að byggja og er þar vísað í nýjar tölur frá Samtökum iðnaðarins. Nú eru tæplega 5.000 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þess, en á sama tíma í fyrra voru þær um 6.000. Húsnæðisskorti er spáð, haldi þessi þróun áfram.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun leggur mat á umsvif á fasteignamarkaði með því að telja íbúðir sem eru teknar af sölu á hverjum tíma og í september var metfjöldi íbúða tekinn af sölu. Meðalsölutími eigna hefur styst, einkum á dýrari eignum og er hann nú 46 dagar að meðaltali á höfuðborgarsvæðinu og 68 dagar annars staðar á landinu. Þetta er meðal annars skýrt með því að nú séu vextir á óverðtryggðum íbúðalánum í sögulegu lágmarki. 

Í skýrslunni kemur fram að leiguverð um allt land hafi lækkað, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, og er það nú svipað því sem var um mitt ár 2018. 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir